144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

hjáseta fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Á þriðjudaginn í síðustu viku greiddi allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna atkvæði um tillögu sem byggð var á biturri reynslu Argentínu undanfarin ár af viðureign við hrægammasjóði. Tillagan fól í sér að búið yrði út fjölþjóðlegt regluverk um endurskipulagningu skulda þjóðríkja með það að markmiði að bæta hið alþjóðlega fjármálakerfi, auðvelda ríkjum í alvarlegum skuldavanda að komast undan óbærilegum skuldum og auka ábyrgð hins alþjóðlega fjármálakerfis, þeirra sem veita lánin, á útlánum. Þessi tillaga mætti andstöðu helstu fjármálavelda heims og kannski ekki mikil furða. Ellefu ríki greiddu atkvæði gegn tillögunni, 124 greiddu henni atkvæði en 41 sat hjá, þeirra á meðal Ísland. Það vekur mér nokkra undrun.

Reynsla okkar af glímu við skuldavanda bankakerfis á undanförnum árum er án efa sú að það skiptir máli að afskrifa skuldir sem ekki er innstæða fyrir. Það skiptir máli að styðja ríki í baráttu þeirra við fjármálakerfi sem ekki sætir fullnægjandi ábyrgð á útlánum sínum og það er mikilvægt að komast hjá því að ríki þurfi að binda borgara sína í fjötra fátæktar og erfiðleika til að standa skil á lánum sem byggja á hæpnum siðferðilegum grunni.

Það er líka mikilvægt að standa gegn alþjóðlegum hrægammasjóðum. Ég hef skilið þessa ríkisstjórn þannig að hún hafi áhuga á því að veita þeim viðnám. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hverju sæti að Ísland hafi ekki stutt þessa tillögu þar sem hann fer með stefnumörkun á þessu sviði innan ríkisstjórnarinnar og fyrirsögn til dæmis hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.