144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

hjáseta fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Mér er svo sem ljúft að standa hérna og svara fyrir atkvæðagreiðsluna hjá Sameinuðu þjóðunum um þetta mál þó að ég telji reyndar að fyrirspurnin hefði kannski betur átt heima hjá utanríkisráðherra. Þau skilaboð fylgdu atkvæði Íslands að jafnvel þótt hér væri barist fyrir góðum málstað og vissulega þörf á því að gera átak í því með hvaða hætti er unnið að endurskipulagningu skulda ríkja og hvernig samskipti bæði yfir landamæri og við einstaka kröfuhafa fara fram og eru lögfest hafi í þessu tilviki ekki þótt vera nægjanlega vel búið um ýmsa lausa enda og málið þess vegna ekki fullþroskað að mati fulltrúa okkar Íslendinga og þeirra sem hafa haft veg og vanda af því að fylgjast með málinu. Af þeirri ástæðu var setið hjá í þessari atkvæðagreiðslu.

Það er síðan önnur umræða í sjálfu sér hvaða skuldbinding felst í því á endanum að afgreiða mál hjá Sameinuðu þjóðunum og kannski miklu frekar að menn velti fyrir sér hvað menn geta gert bæði hver fyrir sig og síðan í því að raunverulega breyta lögum, en ég tel að þarna sé komin hreyfing á mjög mikilvægt mál sem að mati sérfræðinga okkar er þó ekki fullþroskað. Það er alls ekki lagst gegn því að lagaumhverfið verði bætt, en það þykir ekki nægilega vel unnið á þessu stigi.