144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

hjáseta fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykja þetta svolítið sérkennileg svör því að tillagan hljóðaði upp á að unnið yrði að mótun regluverks að þessu leyti og til þess gefinn ákveðinn tími. Ég sakna þess að Ísland skuli ekki taka ótvíræða afstöðu með ríkjum í skuldavanda í baráttu við alþjóðlegt fjármálakerfi sem við vitum alveg að hefur hvorki sætt lýðræðislegri ábyrgð né eðlilegri tapsáhættu. Ég sakna þess svolítið að það sé ekki sami gustur í orðræðu hæstv. ríkisstjórnar í garð hrægammasjóða nú og var þegar menn töldu hægt að mæta þeim með kylfum. Það er alveg greinilegt að ríkisstjórnin hefur ákveðið í að minnsta kosti þessu máli að fara blíðu leiðina að hinum alþjóðlegu hrægammasjóðum, standa með þeim frekar en þjóðum í vanda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Það er mikilvægt að marka nýjar leikreglur á sviði alþjóðafjármálakerfisins til að gera ríkjum kleift að komast undan óbærilegum skyldum. Ísland ætti að vera þar fremst í flokki.