144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

hjáseta fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvort hv. þingmaður er að reyna að gera einhverja samlíkingu milli þessa máls og þess sem hefur verið að gerast á Íslandi undanfarin ár. Þar er auðvitað sá grundvallarmunur að við höfum ekki glímt við kröfur á hendur íslenska ríkinu nema þá vegna Icesave-reikninganna. Þeir voru svo sem til sem töldu að við hefðum siðferðilega skuldbindingu til að undirgangast þar kúgunarskilmála og ótrúlegar fjárskuldbindingar sem í ljós hefur komið að engin ástæða var til. (Gripið fram í.) Já, já, ég ætla ekki að reyna á 15 sekúndum að rekja alla þá sögu hér.

Mér finnst aðalatriði málsins vera að fulltrúi okkar hjá Sameinuðu þjóðunum lagðist alls ekki gegn þessari vinnu heldur mælti henni frekar bót. Atkvæðinu fylgdi sú skýring að málið á þessu stigi væri ekki nægilega vel undirbúið til að fá atkvæði okkar Íslendinga.