144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

rafræn auðkenni og skuldaleiðrétting.

[15:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini spurningu til hæstv. fjármálaráðherra. Rafræn samskipti innan stjórnsýslunnar eru hugsuð til hagræðis og þæginda fyrir fólk. Nú bregður hins vegar svo við að engu er líkara en að eigi að nota svokallaða skuldaleiðréttingu stjórnvalda til þess að þvinga landsmenn alla inn í viðskipti við eitt tiltekið fyrirtæki, Auðkenni, sem er í eigu fjármálastofnana á Íslandi.

Upphaflega var lagt af stað í þessa för með því að bjóða upp á veflykil ríkisskattstjóra og tæki og tól Auðkennis. Einhverra hluta vegna var ekki minnst á Íslykilinn sem þjóðskrá býður upp á. En síðan fyrir nokkrum dögum er horfið frá þeim hugmyndum og gert að skilyrði að menn skipti við fyrirtækið Auðkenni.

Nú beini ég þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Hvað veldur þessu? Hver tók þessa ákvörðun? Var það ráðherrann sjálfur sem tók þessa ákvörðun, voru það embættismenn í fjármálaráðuneyti sem tóku hana og á hvaða forsendum er hún tekin?