144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

rafræn auðkenni og skuldaleiðrétting.

[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það sem hv. þingmaður var að vísa til undir lok ræðu sinnar voru einhver átök, kannski innan stjórnkerfisins og við aðra aðila utan stjórnkerfisins um það hvaða leið á að verða ofan á. Ég ætla ekki að nota tíma minn til þess að fara út í þá sálma.

Aðalatriðið er þetta: Því miður er það svo að þegar nota á rafræn samskipti við kjósendur, við borgarana í þessu landi, munum við í auknum mæli þurfa að sætta okkur við það að setja þarf miklu hærri og sterkari öryggisstaðla en gilt hafa fram til þessa. Því miður er það svo að það er stórkostleg hætta á því í þessum samskiptum að óprúttnir aðilar brjótist inn í gögnin.

Ég vil biðja menn aðeins um að hugsa þá hugsun til enda hvernig væri það fyrir þing og þá sem hafa staðið að baki þessu máli ef hakkarar kæmust inn í allar upplýsingar um það hvernig greitt hefði verið út, (Forseti hringir.) hver hefði sótt um hvað og hvað hver hefði fengið og þær upplýsingar væru síðan að ganga kaupum og sölum (Forseti hringir.) á internetinu eða annars staðar. Það er meðal annars (Forseti hringir.) svona hlutir sem er verið að líta til (Forseti hringir.) þegar gerðar eru þessar auknu öryggiskröfur. (ÖJ: Það held ég ekki.)