144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[15:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum undanfarna mánuði orðið vitni að sérkennilegri atburðarás vegna hins svokallaða lekamáls og tengdra mála. Ég ætla ekki að gera efnisatriði þess máls eða þeirrar rannsóknar sem nú stendur yfir af hálfu umboðsmanns Alþingis að umtalsefni hér og mikilvægt fyrir okkur að bíða niðurstöðu umboðsmanns í athugun hans.

Það sem skiptir máli hins vegar að ræða núna eru viðbrögð formanns Sjálfstæðisflokksins við þeirri stöðu sem upp kom. Honum ber sem formanni stjórnarflokks að standa vörð um stjórnfestu og leikreglur réttarríkisins, að tryggja að ábyrgð fylgi valdi. Hluti af því er að tryggja að stjórnmálamenn beri ábyrgð og axli ábyrgð af gerðum sínum til að hlífa stjórnkerfinu og embættiskerfinu við óþarfaálitshnekki og gagnrýni. Þar bregst honum algerlega bogalistin. Þegar aðstoðarmaður ráðherra var ákærður fyrir að misfara með opinber gögn í ráðuneyti ráðherrans var ljóst að ráðherrann gat ekki setið áfram. Það var grundvallaratriði sem allir voru sammála um, jafnt helstu málsvarnarmenn ráðherrans og ráðherrann sjálfur. Enginn lét sér koma til hugar að ráðherrann gæti setið áfram við þessar aðstæður.

Þá kemur að því hvað gerist næst. Í öllum öðrum löndum á öllum tímum og á Íslandi allt fram til þessa dags hefði það leitt til þess að ráðherrann axlaði pólitíska ábyrgð og segði af sér, en formaður Sjálfstæðisflokksins virðist ekki hafa ráðið við þá leið. Lausnin var frekar að koma í veg fyrir að ráðherrann axlaði ábyrgð á eigin verkum og aðstæðum sem upp voru komnar og þá þurfti frekar að brjóta upp ráðuneytið en að tryggja að ráðherrann axlaði pólitíska ábyrgð. Uppbrot innanríkisráðuneytisins er svo greinilega klæðskerasaumað að þessum flótta Sjálfstæðisflokksins frá pólitískri ábyrgð.

Fyrir helgi var kynnt hér heildarstefnumörkun um réttarvörslukerfið. Á sama tíma er það brotið upp með þessari breytingu. Stjórnarflokkarnir hafa oft talað um fjölgun ráðuneyta og breytingu á Stjórnarráðinu en aldrei nefnt dómsmálaráðuneytið í því samhengi fyrr en nú að þessi breyting er gerð. Og hvað er gert? Jú, innanríkisráðherra heldur áfram að vera með fullnustu refsinga en dómsmálaráðherra með lögregluna. Innanríkisráðherra er áfram með fullnusturéttarfar en dómsmálaráðherra með dómstólana. Ekkert sýnir betur hversu sundurlaust kerfi réttarvörslunnar í landinu er orðið eftir þessar handahófskenndu breytingar.

Það eru fjölmörg dæmi frá nágrannalöndunum um afsagnir ráðherra vegna mála mjög áþekkra þeim sem upp hafa komið í þessu tilviki. Fyrir því er ástæða. Dómsmálaráðherrar fara með þannig málaflokka, réttarvörslukerfið í heild, málefni innflytjenda, málefni fangelsa og svo mætti lengi telja. Það er hins vegar mjög alvarlegt mál ef Sjálfstæðisflokkurinn ræður ekki við að finna pólitískri ábyrgð farveg. Ef pólitíkin bregst verðum við að geta treyst því að pólitíkin bregðist við. Ef pólitíkin bregst á ekki að breyta stjórnkerfinu. Ef stjórnkerfið bregst hins vegar er sjálfsagt að breyta því, en í þessu máli er öllum ljóst að það var ekki stjórnkerfið sem brást. Það viðbragð að brjóta upp ráðuneytið, málaflokknum til ærins tjóns, byggir ekki á efnislegri greiningu heldur vandræðalegum viðbrögðum formanns Sjálfstæðisflokksins við málum sem upp eru komin.

Við eigum mikið undir því, til að tryggja stjórnfestu, að við stöndum líka vörð um réttarvörslukerfið í heild. Umboðsmaður Alþingis er hluti af réttarvörslukerfinu í heild. Samt fannst formanni Sjálfstæðisflokksins eðlilegt að víkja að honum með aðfinnslum í yfirstandandi rannsókn hans. Ég velti þeirri spurningu upp: Hefði formaður Sjálfstæðisflokksins gert það ef um lögreglurannsókn væri að ræða? Er eðlilegt með þessum hætti að sveigja að umboðsmanni Alþingis meðan hann er með mál til meðferðar? Ég tel svo ekki vera.

Með lögum skal land byggja, stendur á búningi hvers einasta lögreglumanns í landinu. Hluti af því er að réttarvörslukerfið í heild standi fyrir sínu og að forustumenn í stjórnmálum verji það og standi með því þegar að því er sótt. En það skiptir líka máli að pólitísk ábyrgð sé öxluð af stjórnmálamönnum en henni ekki ýtt á herðar embættiskerfisins eða stjórnkerfisins. Stjórnmálamenn verða að standa undir pólitískri ábyrgð.