144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[15:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ágætlega talað um þetta á íslensku, maður gegnir embætti, maður gegnir stöðu. Maður ræður ekki embættinu eða nýtur þess eða eitthvað svoleiðis, við tölum ekki um það þannig. Við tölum um að gegna því, maður á að hlýða því, maður á að gera eins og embættið segir. Maður á að gera embættinu gagn. Maður er sem sagt minni en embættið, embættið er stærra en manneskjan sem gegnir því. Og ef maður gegnir embættinu á maður að passa upp á að embættið bíði ekki skaða af veru manns í því og skila því góðu til þess næsta sem gegnir því. Mér finnst þessi prinsipp hafa verið brotin í þessu máli.

Ríkisstjórnin ákveður hvaða fagsvið eiga að vera hjá hvaða ráðherraembætti í ríkisstjórn. Þær ákvarðanir eru teknar væntanlega á faglegum grunni með hag stjórnsýslunnar að leiðarljósi, með hag almennings að leiðarljósi, með þjóðarhag að leiðarljósi. Hér er skipt upp fagsviðum vegna þess að ein manneskja hefur lent í vandræðum með stjórnsýslulegar ákvarðanir sínar. Það er sem sagt ekki þjóðarhagur sem ræður ferð, það er ekki hagur embættisins. Þetta er villan í málinu.

Manneskjan sem gegnir embætti innanríkisráðherra var fyrir margt löngu orðin óhæf til að gegna því embætti vegna þess að hún sætti rannsókn, hún og hennar aðstoðarmenn. Hún fer með stjórn lögreglumála í þessu embætti. Það er alveg sama, burt séð frá því hvort það verði felldur dómur henni í óhag eða ekki þá snýst þetta um að vernda embættið og víkja einfaldlega til hliðar á meðan á þessu stendur.

Tökum nærtækt dæmi eða bara dæmi sem gæti alveg komið upp einhvern tíma. Ef fjármálaráðherra í ríkisstjórn sætti skattrannsókn eða einhver aðstoðarmanna hans, væri það þá nægjanlegt til þess að verja embættið og stjórnsýsluna (Forseti hringir.) að hann mundi fela öðrum ráðherra að fara með málaflokk (Forseti hringir.) skattrannsókna? Auðvitað ekki.