144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[15:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því hér í upphafsorðum hv. þm. Árna Páls Árnasonar að um leið og hann ætlaði sér að fjalla um lekamálið þá ætlaði hann sér ekki að fjalla um það efnislega. Það er afar erfitt að fjalla um málið hér úr ræðustól Alþingis án þess að víkja að því efnislega með einum eða öðrum hætti. Ég mundi segja að það sé óhjákvæmilegt. Mér fannst hv. þingmanni ekki takast neitt sérstaklega vel upp.

Umboðsmaður Alþingis er með málið til rannsóknar og skoðunar. Hann tók það upp að eigin frumkvæði samkvæmt 5. gr. laga um umboðsmann Alþingis og hann hefur gefið það út að hann muni gefa Alþingi sérstaka skýrslu um málið. Það er fullkomlega óeðlilegt og rangt að Alþingi fjalli efnislega um málið.

Ég tek eftir því að hv. formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar tekur ekki þátt í þessari umræðu sem lýtur jú beint að því efni sem nefndin hans mun fá til efnislegrar meðferðar. Ég tel að það sé nákvæmlega af þeirri einni ástæðu að við eigum ekki að fjalla efnislega um mál sem er til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis.

Innanríkisráðherra verður að fá að njóta sannmælis í málinu. Ég held að við verðum að halda því til haga að hún hefur stigið til hliðar sem dómsmálaráðherra. Allir sem koma að þessu máli verða að fá að njóta sannmælis en það er okkar hlutverk hér á Alþingi að gæta að þrígreiningu ríkisvaldsins. Lýðræðið okkar er þannig skipað að vald fylgist með valdi, framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið og dómsvaldið eiga að tempra hvert annað. Það er líka rangt að umboðsmaður Alþingis sé hluti af réttarvörslukerfinu í heild. (Forseti hringir.) Hann er undirstofnun Alþingis. Við verðum að virða þá stjórnskipun sem er í landinu.