144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[15:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Einn af meginlærdómunum sem við drógum af óförum okkar, því hruni sem hér varð árið 2008, er að við erum lítil þjóð, við erum aðeins 0,3 milljóna manna þjóð. Við þurfum að halda vel á spöðunum í því að standa vörð um eftirlitsstofnanir okkar í þessu litla samfélagi, um sjálfstæði þeirra og að skipuleggja stjórnkerfi okkar eins vel og við getum þannig að stofnanir stjórnkerfisins séu eins öflugar og kostur er í litlu landi eins og Íslandi. Þetta hefur verið viðleitnin á Alþingi alveg frá hruni. Sameining ráðuneyta á síðasta kjörtímabili sneri að því markmiði að styrkja Stjórnarráðið og styrkja ráðuneyti þess með því að sameina lítil og vanmáttug ráðuneyti í stærri og öflugri einingar til þess að styrkja og efla stjórnkerfi okkar.

Það er dapurlegt að svona fáum árum eftir að illa fór séum við aftur farin að brjóta upp það sem við höfum skapað, bæði í tengslum við vandræði eins pólitísks ráðherra sem hefur beðist lausnar frá tilteknum embættisskyldum og í öðrum ráðuneytum í Stjórnarráðinu þar sem komnir eru inn fleiri en einn ráðherra í sama ráðuneyti og boðuð er uppskipting á ráðuneytum sem við vorum rétt í þessu að efla vegna þess að stjórnkerfi okkar var of veikt, að ekki sé nú talað um þann skelfilega vanda sem við erum komin í með eftirlitsstofnanir okkar, stöðu þeirra og þá virðingu sem við í þessum sal eigum að sýna þeim.