144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp hér á þingi. Öryggi í fjarskiptum og í fjarskiptakerfum landsins er ekki síður mikilvægt en annað sem snýr að því að tryggja með sem bestum hætti öryggi landsmanna.

Hv. þingmaður ber hér upp nokkrar spurningar varðandi mál sem ég mun leitast við að svara. Þannig vísaði hv. þingmaður til þess að í ágúst sl. varð víðtæk bilun í búnaði Mílu og fjarskiptakerfi Símans á Vestfjörðum og spurði réttilega hvernig ráðherra hygðist bregðast við því. Því er til að svara að Póst- og fjarskiptastofnun fer með eftirlit með fjarskiptum á Íslandi og kallar eftir skýrslu um stærri bilanir ef þörf þykir og gerir nauðsynlegar ráðstafanir í kjölfarið í samræmi við heimildir og hlutverk stofnunarinnar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef um málið kemur fram að bilun varð í ljósleiðarabúnaði Mílu sem varð til þess að samband viðskiptavina Mílu, þar með talið Símans á Vestfjörðum, rofnaði. Varasamband Mílu um örbylgjusamband lá á sama tíma niðri vegna bilunar og virkaði því ekki.

Þess má geta að þessi bilun í búnaði Mílu hafði hins vegar engin áhrif á þjónustu Vodafone á svæðinu. Vodafone brást við ástandinu með því að heimila farsímanotendum Símans aðgang að sendum Vodafone. Slík samvinna undir erfiðum kringumstæðum er til eftirbreytni. Ljósleiðarahringtenging um Vestfirði mun efla fjarskiptaöryggi á svæðinu til muna og skiptir, líkt og hv. þingmaður nefndi, mjög miklu.

Það er svo við þetta að bæta að í fjarskiptaáætlun 2011–2022 er að finna markmið er lýtur að ljósleiðarahringtengingu landsvæða með yfir 5 þús. íbúa. Um Vestfirði liggur ljósleiðari vestur um Reykhólahrepp til Vesturbyggðar og þaðan norður til Súðavíkur með viðkomu í helstu byggðakjörnum. Varasamband um örbylgjubúnað á að vera tiltækt verði bilun í ljósleiðarabúnaði. Það er samdóma álit hagsmunaaðila að þörf sé á hringtengingu ljósleiðara um Vestfirði, ekki síst vegna ríkra öryggishagsmuna íbúa og atvinnulífs.

Það er þess vegna of snemmt að svara því sem spurt var um, hvenær hringtengingu við Vestfirði lyki nákvæmlega, og það væri óábyrgt af mér að nefna slíkar dagsetningar í því sambandi. Ég vil þó upplýsa þingheim og hv. þingmann um það að ég hef á grundvelli tillögu verkefnastjórnar fjarskiptaáætlunar lagt til við fjarskiptasjóð að styrkja lagningu ljósleiðara frá Súðavík að Brú í Hrútafirði með viðkomu í Hólmavík. Með því næst hringtenging ljósleiðara um Vestfirði sem mun, líkt og ég held að við getum öll verið sammála um, tryggja aukið öryggi á svæðinu.

Heildarráðstöfunarfé fjarskiptasjóðs er tæpar 100 milljónir kr. sem er rúmur þriðjungur af áætluðum heildarkostnaði við verkið. Það eru margir sem hafa hag af þessu verkefni og eðlilegt að þeir leggi því lið beint eða óbeint. Rétt er þó að taka fram að fullkomið öryggi verður seint tryggt þar sem bilun í raforkukerfi og ýmislegt ófyrirséð getur haft áhrif á uppitíma fjarskipta líkt og við þekkjum.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði einnig hvenær vinnu á vegum innanríkisráðuneytisins við að kortleggja og þarfagreina uppbyggingu á háhraðatengingu í dreifbýli landsins lyki. Því er til að svara að almennt liggja fyrir góðar upplýsingar um fjarskiptaþjónustu hér á landi og almenningur getur nálgast myndræna gagnagrunna um útbreiðslu fjarskiptakerfa á landsvísu. Þá vinnur verkefnastjórn undir forustu Arnbjargar Sveinsdóttur, fyrrverandi alþingismanns, nú að því að endurskoða fjarskiptaáætlun og stefnt er að því að leggja fram nýja áætlun fljótlega eftir áramót. Í henni verða sett fram markmið um uppbyggingu fjarskipta hér á landi og verkefni sem ætlað er að stuðla að því að þeim markmiðum verði náð.

Þá er einnig starfandi verkefnahópur á mínum vegum undir forustu hv. alþingismanns Haraldar Benediktssonar að gerð tillagna um breytingar á alþjónustu í fjarskiptum. Gert er ráð fyrir því að hópurinn skili tillögum sínum í október nk. um mögulega uppbyggingu fjarskiptasambanda.

Hv. þingmaður spurði einnig hvenær vænta mætti þess að farsímasamband yrði komið á í Vestfjarðagöngum líkt og nú þegar í öðrum nýlegum göngum. Það er allt í vinnslu eins og ég nefndi áðan og hafa ýmsir aðilar komið að því.

Ég held hins vegar, virðulegur forseti, að það sem mestu skipti í þessu máli sé það sem við höfum reyndar oft rætt í þessum sal og ég vona að við náum samstöðu og sátt um, sem er það verkefni að tryggja almennileg, viðunandi, uppbyggilega og nútímalega tengingu víða á landinu. Það hefur ekki tekist enn þá og það eru ákveðnar breyttar forsendur sem valda því, kröfurnar eru meiri og við höfum ekki haft fjármagn til þess að fjárfesta nægilega mikið í innviðum. Við stöndum frammi fyrir því og við verðum að gera betur. Ég átta mig alveg á mikilvægi Vestfjarða í því sambandi, er sammála hv. þingmanni um að það stendur ekki einungis íbúum fyrir þrifum á þessu svæði heldur líka nútímalegri og öflugri atvinnuuppbyggingu og er mjög mikið og stórt mál. Ég skil vel að þingmenn hafi af því áhyggjur. Ég deili þeim áhyggjum en vona að mér hafi tekist að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður lagði fyrir mig.