144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:23]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram um öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbyggingu háhraðatenginga í dreifbýli, enda er tilefni þessarar umræðu ærið því að það virðist sem menn hafi einfaldlega sofið á verðinum, steinsofið, um allnokkra hríð eins og við vorum rækilega minnt á núna nýlega þegar heill landshluti, Vestfirðirnir, misstu símsamband sitt, bæði aðal- og varakerfi. Þegar slíkt gerist vakna menn auðvitað upp við vondan draum, ekki síst þeir sem hafa daufheyrst við ítrekuðu ákalli um úrbætur, einmitt á sviði fjarskipta en ekki síður á sviði afhendingaröryggis raforku sem spilar nú inn í þetta líka því að fjarskiptin byggja að sjálfsögðu á raforkunni og án hennar getur illa farið eins og raunar þessi sami landshluti mátti reyna fyrir um það bil tveimur árum þegar illviðri orsakaði langtímarafmagnsleysi sem kostaði næstum það að Vestfirðir yrðu fjarskiptalausir með öllu — eins og síðan gerðist núna í ágústmánuði, raunar af annarri ástæðu, þegar landshlutinn varð símsambandslaus við umheiminn, bæði aðal- og varakerfi, sjúkrahús, skólar, lögregla, almannavarnir o.s.frv.

Forsvarsmenn fjarskiptafyrirtækjanna sem bera ábyrgð á kerfinu stömuðu því út úr sér í fjölmiðlum að þetta væri einstök tilviljun sem það var þó alls ekki því að það er vitað að varakerfið var í lamasessi og svo veikt að það hefur aldrei annað nema brotabroti af því sem þarf ef aðalkerfið dettur út því að varakerfið er bara örbylgjusamband. Þetta vissu menn og þess vegna eiga þeir sem ábyrgð bera ekki að komast upp með það að vera hissa og tala um tilviljanir þegar í raun og veru var um (Forseti hringir.) vanrækslusynd að ræða. Vanræksla er stórt orð en ég verð því miður að taka mér það í munn hér í þessu samhengi og rökstyðja það (Forseti hringir.) í seinni ræðu minni hér á eftir.