144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda kærlega fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli sem er okkur pírötum mjög hugleikið. Eitt af forgangsmálum Pírata á þessu þingi er þingmál um jafnan aðgang allra landsmanna að internetinu enda um að ræða raunverulega forsendu þess að atvinnu- og byggðastefna flokksins gangi upp.

Þann 26. ágúst 2014 lágu niðri svo gott sem öll fjarskipti að stórum hluta á Vestfjörðum — ekkert net, enginn sími, ekkert GSM-samband. Ef fólk sem var á þessum slóðum hefði slasast hefði það ekki getað hringt eftir hjálp. Fólk þurfi að sögn að nota reiðufé vegna þess að greiðsluþjónustur virkuðu ekki. Svona var þetta tímunum saman, um 7 tíma samkvæmt mínum heimildum.

Nú er víða netvandamál á Íslandi en það hlýtur að vera verst á Vestfjörðum, ef ekki hefði maður heyrt af öðrum eins ógöngum. Það er rétt sem annar hv. þingmaður nefndi hér áður að þetta er ekki í fyrsta sinn sem við heyrum af þessu, við höfum heyrt af þessu margsinnis áður og ættum í raun og veru að vita betur.

Þegar svo er komið tel ég einsýnt að ríkið þurfi að bregðast við. Þetta er nefnilega vandamál þegar kemur að veitingu internets úti á landi, sérstaklega þegar einkaaðilar og hið opinbera eru í störukeppni. Ríkið metur það sem svo að svæðinu henti samkeppni, síðan kemur í ljós að svo er ekki. Einkaaðilarnir líta einfaldlega ekki svo á, sennilega með réttu, að það borgi sig að hafa netið í lagi þarna og þegar svæðið er skilgreint sem samkeppnissvæði getur hið opinbera ekki gripið inn í. Þetta er eitt af stóru vandamálunum við þennan málaflokk og nokkuð sem við þurfum að taka á.

Nú hef ég engan tíma lengur eftir til þess að ræða þetta en ég vildi nefna kostnaðinn vegna þess að hæstv. innanríkisráðherra nefndi að það færu 100 milljónir, sem um það bil þriðjungurinn af áætluðum heildarkostnaði, að mestu leyti í verkefnið. Mínar heimildir segja að heildarkostnaðurinn sé í kringum 500–600 milljónir. Nú þekki ég ekki nákvæmlega hver (Forseti hringir.) munurinn er, hvort einhver innihaldsmunur sé á þessum tölum, en mér finnst mikilvægt að við tökum þetta mál alvarlega og hugsum verkið (Forseti hringir.) í nokkrum hundruð milljónum, ekki bara 100 milljónum.