144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og rakið hefur verið er ástæða þessarar umræðu hin grafalvarlega staða sem kom upp þegar stór hluti Vestfjarða varð sambandslaus við umheiminn í marga klukkutíma. Það er auðvitað óásættanlegt.

Eins og hæstv. forsætisráðherra minnti okkur á í stefnuræðu sinni búum við í landi íss og elda og hætturnar sem geta skapast í umhverfinu kalla á að hægt sé að ná í viðbragðsaðila. Fyrir utan hversdagslega öryggið sem felst í því að geta gengið að því sem vísu að geta kallað eftir lögreglu eða læknisaðstoð þegar þess er þörf.

Við öll hér inni sem og landsmenn allir vitum alveg að nútímasamfélag byggir ansi margt í afkomu sinni á því að fjarskiptin séu í lagi. Góð fjarskipti eru raunar forsenda þess að fjölbreytt atvinnulíf fái þrifist. Bændur færa skýrsluhald sitt með rafrænum hætti, sjómenn senda tölur um afla rafrænt á markaði áður en þeir eru komnir í land og raunar má sömu sögu segja um alla nútímaatvinnustarfsemi, hún kallar á örugg og stöðug fjarskipti.

Uppbygging háhraðatenginga í dreifbýli landsins er stór forsenda eflingar byggðar. Hún er nauðsynleg svo að atvinnulífið fái þrifist og fólkið, einkum yngra fólkið, horfi til landsbyggðarinnar sem framtíðarvettvangs. En auðvitað kostar hún peninga, peninga sem hljóta að miklu leyti að koma úr sameiginlegum sjóðum. Í því sambandi má minna á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er beinlínis rætt um uppbyggingu fjarskiptanets og stóraukna ljósleiðaravæðingu. Varðandi Vestfirði sérstaklega hefur réttilega verið bent á mikilvægi hringtengingar ljósleiðarakerfisins. Því miður (Forseti hringir.) bendir það fjárlagafrumvarp sem kynnt hefur verið fyrir þinginu ekki til þess að stórátak verði í þeim málum á komandi árum.