144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefur dregist allt of lengi að ráða bót á fjarskipta- og samgönguvanda þeirra byggðarlaga í landinu sem hafa til að mynda ekki fengið háhraðatengingar eins og nokkur byggðarlög fyrir norðan, að ég tali svo ekki um Vestfirðina.

Ég vil í þessu samhengi minna á að stjórnvöld hafa á síðustu árum stefnt að aukinni samþættingu þjónustu og sameiningu bæði stofnana og sveitarfélaga víðs vegar um land, m.a. á Vestfjörðum þar sem sameining heilbrigðisstofnana er hafin. Gott internetsamband og traust fjarskipti á borð við gott símsamband er auðvitað grundvöllur fyrir eðlilegri atvinnuþróun og uppbyggingu rafrænnar stjórnsýslu og jafnræði íbúanna varðandi aðgengi að opinberri þjónustu, menntun, afþreyingu og atvinnusókn. Þetta er auðvitað sjálfsagður liður í því að jafna búsetuskilyrði í landinu og hlýtur að teljast sjálfsagður hlutur hvar á landinu sem er í nútímasamfélagi.

Það er líka svo merkilegt að stefnan um uppbyggingu tryggra fjarskipta og hnökralaust aðgengi allra landshluta að interneti liggur fyrir. Hún hefur verið sett fram í byggðaáætlunum árum saman. Hún er núna í stefnumótandi byggðaáætlun 2014–2017. Fyrir þinginu liggja og hafa legið þingsályktunartillögur um aðgengi allra landsmanna að interneti, en það gerist lítið. Það er hins vegar algjörlega ljóst í ljósi byggðaþróunar og einhæfni atvinnulífs á Vestfjörðum hversu mikilvægt það er að byggðarlögin þar verði tengd ljósleiðara.

Ég vona að bæði hæstv. ráðherra og þingið geri sér nú grein fyrir því í ljósi nýorðinna atburða að undan því verður ekki vikist lengur að koma á hringtengingu háhraðanets á Vestfjörðum (Forseti hringir.) og tryggja sómasamlegt háhraðaaðgengi í þeim byggðarlögum vestan lands og norðan sem enn þurfa á því að halda.