144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Ég verð að viðurkenna það að ég hefði gjarnan viljað heyra hér að það væri verið að vinna að því að leggja meiri fjármuni í uppbyggingu bæði háhraðatenginga og að hringtengja Vestfirði með ljósleiðara, eins og er búið að sýna fram á að er ekki bara mikið byggðamál heldur fyrst og fremst mjög mikið öryggismál. Það kom í ljós að Vestfirðingar voru algerlega slitnir frá umheiminum í um sex klukkustundir, sem er óásættanlegt. Það mundi enginn láta bjóða sér að slíkt gæti gerst í raun og veru hvenær sem er. Míla hefur viðurkennt að þótt hún bæti örbylgjusambandið sé langt í frá að það sé öryggi til að treysta á.

Ég vil því brýna hæstv. ráðherra til að berjast fyrir því að ná meiri fjármunum en þeim 100 milljónum sem eru í fjarskiptasjóði. Við megum ekki fara á hraða snigilsins í þessu máli. Það er óásættanlegt. Vissulega eru fleiri landsvæði þar sem landsmenn búa við sömu eða álíka aðstæður, en það er samt ekki í heildina stór hluti sem á eftir að tryggja háhraðatengingu og ljósleiðarasamband. Það verður einhvern tímann að gera meira en að lofa og fara um þetta fögrum orðum því að örugg fjarskipti og öflugar háhraðatengingar er ein skilvirkasta byggðaaðgerð sem stjórnvöld geta framkvæmt. Það er löngu kominn tími til að menn sýni það í verki en ekki bara í nefndarskipan og fögrum orðum að ljúka þessu (Forseti hringir.) í eitt skipti fyrir öll.