144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þessa góðu og málefnalegu umræðu sem staðfestir aftur það sem hefur auðvitað oft komið fram í þessum sal, sem er samstaða þingmanna gagnvart því verkefni er lýtur að því að tryggja að fjarskiptin í okkar dreifbýla og stóra landi séu í lagi. Ég er fyrst manna og kvenna til þess að viðurkenna að þau eru ekki með fullnægjandi hætti og við því verður að bregðast.

Það er auðvitað þingsins að meta það í umræðu um fjárlög og vinnu í fjárlaganefnd hvort ástæða sé til þess að auka fjármagn í þessi verkefni. Við megum hins vegar ekki gleyma því þegar við erum að tala um öfluga háhraðatengingu, við erum öll sammála um mikilvægi hennar, að hún er engu að síður á hverjum tíma í raun og veru eilítið huglæg stærð. Ég bendi bara á að við hefðum aldrei talað með sama hætti fyrir nokkrum árum síðan. Við tölum örugglega með öðrum hætti eftir nokkur ár. Þetta er viðvarandi verkefni. Það er gott að við séum á tánum gagnvart því.

Við búum samt sem áður á landi þar sem öllum landsmönnum stendur til boða einhvers konar sítengd nettenging. Árlega nýta fjarskiptafyrirtæki okkar 7–8 milljarða til þess að byggja upp fjarskiptakerfið. Það virðist ekki vera nóg, það virðist þurfa að gera betur. Þess vegna hef ég lagt áherslu á það og nefndi það hér áðan að gerð verði tillaga um að þetta verkefni verði styrkt af hálfu fjarskiptasjóðs, þ.e. háhraðatenging um Vestfirði.

Síðan er líka í gangi mikilvægt verkefni til þess að tryggja það hvernig við komum betur að þessum verkefnum í heild sinni. Ég held okkur greini ekkert á um það. Hið eilífa vandamál og viðfangsefni Alþingis Íslendinga er takmarkað fjármagn, forgangsröðun fjármagns. Það stendur ekki á mér að forgangsraða í þágu þessara þátta. Ég vona að Alþingi nái því á einhverjum tímapunkti að gera eins vel og við mögulega getum, en auðvitað í góðu samstarfi við fyrirtæki og einstaklinga sem eru að efla þessa þætti um allt land.