144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

nauðungarsala.

7. mál
[16:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef áður staðið í þessum stól og mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu og geri það nú aftur. Frumvarpið felur í stuttu máli í sér framlengingu á frestun á nauðungarsölum en sem kunnugt er samþykkt meiri hluti Alþingis frumvarp fyrir síðustu áramót sem fól í sér frestun á nauðungarsölum fram yfir mitt þetta ár, nánar tiltekið til 1. september á þessu ári. Með þessu frumvarpi er lagt til að fresturinn verði framlengdur til 1. mars 2015.

Það frumvarp eða öllu heldur sú aðgerð að fresta nauðungarsölum var og er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu. Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin nú þegar kynnt höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og þær aðgerðir eru að koma til framkvæmda um þessar mundir líkt og allir þekkja.

Tilgangurinn með því að fresta nauðungarsölum á sínum tíma var sá að skuldurum gæfist tími til að leggja mat á aðgerðirnar og þau áhrif sem þær kynnu að hafa á skuldastöðu viðkomandi einstaklinga og heimila. Frestur til að sækja um höfuðstólslækkun lána rann út um síðustu mánaðamót. Gert er ráð fyrir að niðurstaða ríkisskattstjóra sem annast útreikning leiðréttingarinnar liggi fyrir í lok september en þá skal umsækjandi samþykkja útreikning og framkvæmd leiðréttingar innan þriggja mánaða frá birtingardegi. Ef umsækjandi samþykkir ekki niðurstöðu ríkisskattstjóra getur hann sótt um leiðréttingu á útreikningi eða kært málið til sérstakrar úrskurðarnefndar innan þriggja mánaða.

Gera má ráð fyrir að niðurstaða í flestum málum er varða leiðréttingu fasteignaveðlána liggi fyrir innan sex mánaða frá því að umsóknarfresti um leiðréttingu lauk. Af þessum ástæðum er lagt til að heimilt verði að fresta nauðungarsölum fram yfir 1. mars 2015.

Eins og fram kom í máli mínu fyrst þegar þetta mál var flutt hér á Alþingi hefur alltaf legið fyrir að frestun á nauðungarsölu væri aðgerð sem mundi fylgja heildartillögum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimila.

Líkt og í fyrra frumvarpi getur gerðarþoli óskað þess að tilteknum nauðungarsöluaðgerðum verði frestað fram yfir 1. mars 2015. Óski skuldari eftir því að ákvörðun um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði verði frestað fram yfir 1. mars 2015 ber sýslumanni samkvæmt frumvarpinu að verða við þeirri beiðni án þess að leitað sé eftir afstöðu gerðarbeiðanda til beiðninnar. Þannig er lagt til að sýslumaður veiti frest á því að eign sé seld lokasölu á nauðungaruppboði fram yfir 1. mars 2015. Jafnframt er lagt til að hafi eign verið seld lokasölu en svokallaður samþykkisfrestur er ekki liðinn megi sýslumaður fresta aðgerðum að fengnu samþykki gerðarbeiðanda og hæstbjóðanda í eignina.

Rétt er að taka fram að ekki er um sjálfvirka frestun nauðungarsölu að ræða heldur verður það val gerðarþola að óska eftir slíkri frestun. Ekki er gerð krafa um að samþykki kröfuhafa liggi fyrir svo veita megi frest, en heimildin er bundin við þær fasteignir þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skrásett lögheimili enda sé um að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga. Þá er þess krafist að viðkomandi hafi sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir frumvarpinu og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr. Ég vona innilega og veit að um þetta mál er hér góð sátt. Hún var þegar frumvarpið var áður flutt og er vonandi núna. Tíminn sem þessir útreikningar taka og tíminn sem við viljum gefa skuldurum til að kæra málið og fá í það niðurstöðu er lengri en áætlað var í upphafi þannig að ég vona að þingheimur taki vel í frumvarpið og vona innilega að afgreiðsla málsins taki eins stuttan tíma og mögulegt er miðað við þingstörf til að tryggja að þessi lausn geti nýst þeim sem helst þurfa á að halda.