144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

nauðungarsala.

7. mál
[16:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna aðeins sé verið að veita þessa frestun hjá þeim sem hafa sótt um leiðréttingar vegna frumvarpa ríkisstjórnarinnar og hvort ekki væri hægt að setja aðra inn í, sér í lagi þá sem eru með verðtryggð húsnæðislán sem þeir hafa tekið eftir 2001 og þangað til lögunum var breytt núna nýlega. EFTA-dómstóllinn gaf nýlega álit um að það skyldi dæmt heima í héraði, hérna á Íslandi, um hvort verðtryggingin væri lögleg. Flestir telja, þar á meðal Hagsmunasamtök heimilanna, að verðtryggingin sé ekki ólögleg en útfærslan á flestum neytendalánum er það mjög líklega.

Hverjir segja það? Jú, ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, segir það í áliti, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir það, Neytendastofa á Íslandi segir það og seinna í þessum mánuði mun EFTA-dómstóllinn gefa álit um þessa útfærslu á neytendalánum, að í lánasamningunum frá 2001 hafi verið reiknuð 0% verðbólga. Það eru rangar upplýsingar um raunverulegt verð á lánum sem fólk hefur tekið. Þetta segja allir þessir aðilar að sé ólögmætt.

Það er dómsmál í gangi sem Hagsmunasamtök heimilanna reka gagnvart Íbúðalánasjóði um nákvæmlega þetta atriði. Hæstiréttur mun þurfa að úrskurða um þetta á næstunni, um mitt næsta ár í síðasta lagi.

Spurningin er hvort ekki væri hægt að taka þennan hóp inn í á einfaldan hátt þannig að ekki sé verið að selja ofan af honum eigur á grundvelli lána sem flestir segja að séu ólögmæt. Við erum að bíða eftir dómsorði, við erum að bíða eftir svari Hæstaréttar. Ef EFTA-dómstóllinn segir að þetta séu ólögmætir skilmálar eins og (Forseti hringir.) öll hin batteríin — Hæstiréttur hefur aldrei dæmt gegn áliti EFTA-dómstólsins. (Forseti hringir.)

Við erum að tala um heimili fólks. Getum við ekki passað upp á að þetta fólk missi þau ekki rétt áður en dómstólar segja, sem góðar líkur eru á, (Forseti hringir.) að lánin séu ólögmæt?