144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

nauðungarsala.

7. mál
[16:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum áður rætt þessi mál sem hv. þingmaður kemur hér inn á og við eigum eftir að sjá nákvæmlega hver niðurstaðan frá dómstólum verður í því máli, það er alveg rétt.

Eins og ég hef áður sagt, og kom fram í framsögu minni hér áðan og við höfum áður komið inn á í þessu máli, tengist þessi frestun á nauðungarsölum leiðréttingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar, hefur alltaf tengst þeim og verið hluti af þeim. Ástæðan og rökin fyrir frumvarpsflutningnum á sínum tíma voru þær ráðstafanir. Við teljum rétt að það sé gert með sama hætti núna. Þess vegna eru sett inn ákvæði er lúta að því að viðkomandi skuldari hafi sótt um þessa leiðréttingu og sé þá hluti af þeim aðgerðum. Það var og hefur alltaf verið uppleggið þannig að við höldum okkur við það.

Eins og hv. þingmanni er sjálfsagt ljóst sóttu mjög margir um leiðréttinguna, mjög margir sóttu um höfuðstólslækkun, þannig að við eigum von á því að þetta komi mjög mörgum til góða.

Hins vegar verðum við líka að horfast í augu við það, virðulegur forseti, og hv. þingmenn og þingmaður, að þrátt fyrir að þessi aðgerð geti nýst mörgum — og vonandi nýtist hún sem flestum — er það auðvitað þannig að hún bjargar hugsanlega ekki öllum. Við megum heldur ekki vekja vonir sem síðan standast ekki. Þess vegna er þetta hluti af þeirri aðgerð er lýtur að leiðréttingunni og tækifærum fólks til að yfirfara fjármál sín á grundvelli þess. Það var uppleggið í byrjun. Þetta var liður í þingsályktunartillögu sem forsætisráðherra mælti fyrir í upphafi þessa þings.

Þetta frumvarp sem nú er flutt ber þess öll merki og er stofn af sama meiði.