144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

nauðungarsala.

7. mál
[17:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt og það er þá annað mál. Því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir er ekki ætlað að taka á þeirri niðurstöðu sem getur orðið hjá dómstólum. Það er ekki inntak þessa máls. Inntak þessa máls er, eins og ég hef áður sagt, liður í skuldaleiðréttingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar. Hitt er annað mál sem verður sjálfsagt rætt á þinginu þegar sú niðurstaða liggur fyrir.

Öll umræða um þessa þætti getur tekið á miklu stærri málum en við erum hér að fjalla um, getur verið miklu víðfeðmara og stærra mál. Ég held að það sé mikilvægt og ég hvet þingheim til þess, ekki það að ég sé að draga úr mikilvægi umræðunnar eða vinnunnar hér á þingi, að koma þessu máli í gegn, að við fáum niðurstöðu í það og það verði samþykkt vegna þess að það skiptir máli fyrir marga. Hitt sem hv. þingmaður nefnir er hluti af stærra máli sem þessu frumvarpi er ekki ætlað að taka á.