144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

6. mál
[17:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að innleidd sé tilskipun nr. 2009/22, um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda. Þessi tilskipun er endurútgáfa eldri tilskipunar um sama efni. Frumvarpið var, líkt og nokkur þeirra frumvarpa sem ég hef mælt fyrir hér í dag, áður lagt fram á 143. löggjafarþingi og eftir 1. umr. var það sent til allsherjar- og menntamálanefndar. Nefndin óskaði eftir umsögnum hagsmunaaðila og bárust henni tvær umsagnir, frá Alþýðusambandi Íslands annars vegar og Neytendastofu hins vegar, og mæltu báðir aðilar með því að frumvarpið yrði samþykkt. Nefndin afgreiddi málið þann 6. maí sl. og lagði einróma til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Ekki gafst þó tími til að ljúka málinu fyrir þingfrestun í vor og er það því lagt hér fram í áður óbreyttri mynd.

Virðulegur forseti. Ég legg áherslu á að hugsunin og tilgangurinn með frumvarpinu er fyrst og fremst til einföldunar þannig að í hvert skipti sem viðauka við EES-tilskipunina er breytt þurfi ekki að fara út í lagabreytingar hér á landi sem geta verið tímafrekar. Þannig flýta eftirtaldar breytingar fyrir innleiðingu á tilskipunum hjá íslenskum stjórnvöldum og eru þannig í fullu samræmi við hina nýju Evrópustefnu sem er í þá veru að minnka halla á innleiðingu gerða frá Evrópusambandinu og hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt hér fyrir.

Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru þrenns konar. Þær eru nokkuð tæknilegs eðlis en, eins og ég sagði í upphafi, einungis hugsaðar til einföldunar kerfisins sem alltaf er til bóta í íslenskri stjórnsýslu.

Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að þær EES-gerðir sem taldar eru upp í viðauka fyrrnefndrar tilskipunar sé að finna í sjálfum lagatextanum muni ráðherra gefa út reglugerð þar sem upptalninguna er að finna. Með því er sem fyrr segir komist hjá lagabreytingum í hvert skipti sem viðaukanum er breytt.

Í öðru lagi er lagt til að tilvísunum til eldri tilskipunar, 98/27, sé breytt í tilskipun 2009/22.

Í þriðja og síðasta lagi er lagt til að horfið verði frá því að ráðuneytið, sem lögin heyra undir, geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál fyrir stjórnvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru EES-ríki. Sú breyting er í samræmi við það fyrirkomulag sem tíðkast í öðrum EES-ríkjum. Þess í stað er lagt til að ráðuneytið muni eingöngu útnefna önnur stjórnvöld og félagasamtök á sviði neytendamála til að fara fram á lögbann eða höfða dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Telja verður að slík stjórnvöld og samtök sem sérhæfð eru í málaflokknum séu betur í stakk búin en ráðuneytið til að leita eftir lögbanni eða höfða dómsmál í slíkum málum.

Þetta var nokkuð rætt á síðasta þingi þegar málið var til umræðu hér en líkt og ég sagði áðan lagði nefndin hv. allsherjar- og menntamálanefnd síðar til að málið yrði samþykkt óbreytt.

Ég hef, virðulegur forseti, nú rakið helstu atriði frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.