144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska okkur öllum til hamingju með Dag umhverfisins, en að því sögðu langar mig að bæta við ágæta umræðu um stöðu og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni sem fram fór hér í gær. Ég tek heils hugar undir það sem þar kom fram að fyrirkomulagið er það flókið og ábyrgð óljós að þeir aðilar sem eiga að bera ábyrgð á fjarskiptum komast upp með að vísa hver á annan í stað þess að unnið sé markvisst að lausnum. Það eru fyrirtækin sem veita þjónustuna, Míla sem rekur dreifikerfið, Ríkisútvarpið og fjarskiptasjóður. Of mikið er um ómarkviss vinnubrögð og misheppnaðar fjárfestingar.

Mig langar að nefna nokkur dæmi bara frá síðustu vikum um að kerfin sem við treystum standa ekki undir væntingum þeirra sem þau eiga að þjónusta. Skemmst er að minnast að sumir viðskiptavinir Nova fengu ekki viðvörun frá Almannavörnum sem send var í smáskilaboðum til fólks sem statt var í Fjarðabyggð síðastliðinn föstudag og í gær voru það viðskiptavinir Símans við Öxarfjörð sem ekki fengu sms-ið frá Almannavörnum.

Fjöldi ferðafólks sótti bæjarhátíðir víða um land í sumar og því miður var staðan oft sú að GSM-kerfin virkuðu illa þar sem mannfjöldi fór fram úr daglegum íbúafjölda. Það þýðir meðal annars skert samband viðbragðsaðila og víða urðu GSM-posar óvirkir, sem ekki er sérlega hentugt dagana sem þjónustuaðilar í byggðunum stefna að hámarki í tekjuöflun.

Á Kópaskeri og í Öxarfirði hefur GSM-samband oft verið stopult sem og sjónvarps- og útvarpsútsendingar vegna bilana hjá Vodafone og galla í kerfi Mílu. Það höfðu svo sem fáir nema íbúarnir sérstakar áhyggjur af þessu þar til fór að gjósa og Almannavarnir fóru að kortleggja stöðuna. Enn vantar þó mikið upp á að þessi mál séu í lagi þar.

Á netinu er að finna kort yfir þau svæði sem GSM-kerfin þjónusta á landsbyggðinni en við sem keyrum þjóðvegi landsins reglulega gætum öll á stuttum tíma gert verulegar leiðréttingar á þessum kortum. Það þarf mikið að breytast á þessu sviði.