144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Tvær stórar pólitískar ákvarðanir sem varða kjör heimilanna koma til framkvæmda nú á sama haustinu, skuldaleiðrétting þar sem skuldir heimilanna lækka um 5% og á sama tíma á að hækka matarskattinn um 5%. Þessir kostnaðarliðir í rekstri heimilanna, húsnæði annars vegar og matur hins vegar, eru álíka þungir. Þeir eru um 15% af útgjöldum venjulegra heimila á Íslandi og niðurstaðan úr loforðunum um hinar miklu kjarabætur Framsóknarflokksins í síðustu kosningum, og Sjálfstæðisflokksins raunar líka, er sem sagt sú að það á að lækka skuldirnar um 5% en hækka matinn um 5%.

Framsóknarflokkurinn hefur loksins fundið trausta leið til að fjármagna skuldaleiðréttinguna sem mun kosta um 18 milljarða á ári en það er með því að leggja 11 milljarða álögur með hækkun á lægra virðisaukaskattsþrepinu á hverju ári. Munurinn er sá að skuldaleiðréttingin varir bara í fjögur ár en hækkunin á matarskattinum mun vara um áratugi.

Þess vegna er ekki nema von að það eru að minnsta kosti nokkrir þingmenn í hópi Framsóknarflokksins sem hafa lofað kjósendum umtalsverðum kjarabótum og að þeim sem verst er settir verði sannarlega mætt í sinni stjórnartíð. Það er gott að það eru þó nokkrir af þeim sem fóru hér um landið með mikil loforð sem eru hikandi við það að styðja þessar gríðarlegu skattahækkanir á lífsnauðsynjar.

En ef þeir heykjast á andstöðu sinni verður það þeim að minnsta kosti til ævarandi skammar að 20% skuldaleiðréttingin — ja, það er kannski sök sér að hún skyldi ekki verða 15% og ekki 10%, heldur bara 5%. Það má kannski segja að meiru hafi þeir ekki komið í höfn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Að á móti þessari litlu 5% leiðréttingu á skuldum heimilanna, 1 milljón á hvert heimili, skuli þeir ætla að hækka mat í landinu um 5% eru ótrúleg svik við kjósendur.