144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Það hefur líklega ekki farið fram hjá henni frekar en öðrum landsmönnum að hér voru alþingiskosningar 2013 og þá var skipt um ríkisstjórn. Það er því ekki nema von að jafnframt hafi verið skipt um stefnu í ríkisfjármálum, það hefði verið mjög óeðlilegt ef þessi ríkisstjórn hefði haldið áfram með þá arfavitlausu fjármálastjórn ríkisins sem hin svokallaða norræna velferðarríkisstjórn fór fram með, hún lofaði ýmsu og efndirnar létu á sér standa.

Hér var talað um að eitthvað hefði skolast til á milli þeirra stjórnarflokka sem nú sitja og um verkaskiptingu ráðuneyta. Því er til að svara að ég held að Stjórnarráðið hafi aldrei verið sett eins mikið á hvolf og á síðasta kjörtímabili, öllu ruglað fram og til baka, ráðuneyti stækkuð og stækkuð svo mikið að jafnvel yfirsýn týndist, má segja.

Af fjárlagavinnunni er það að frétta að fjárlagafrumvarpið kom inn í fjárlaganefnd nú í gær. Það hefur verið haldinn einn fundur og fundir verða haldnir fram að kjördæmaviku í fjárlaganefnd. Vinnan gengur afar vel og ég get fullvissað þingmanninn um það að hún verður fagleg. Ef gleymst hefur að setja eitthvað inn í fjárlagafrumvarpið er alltaf hægt að bæta úr því með breytingartillögum við 2. og 3. umr., þannig að það er nú enginn skaði skeður þótt eitthvað vanti inn sem var vilji til að setja inn. Eins og ég hef svo oft farið yfir getur fjárlagafrumvarpið eins og öll önnur frumvörp tekið breytingum í þinginu. Það er ekki svo að ekki sé hægt að breyta frumvörpum, þannig að það sem þingmaðurinn taldi upp er hægt að setja inn með breytingartillögum.

Þá fer ég fram á það við þingmanninn að hann komi þessum breytingartillögum til fjárlaganefndar svo þær nái framgangi, ef vilji er til þess. Annars verður það til skoðunar. Ég get fullvissað þingmanninn (Forseti hringir.) um að fjárlagavinnan er í góðum höndum.