144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, og breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Um þetta frumvarp hefur talsvert verið rætt og ritað síðustu daga. Það má margt um þá umræða segja en eitt er víst að það er mjög tímabært og þarft að ræða það kerfi sem hér er til skoðunar. Virðisaukaskattskerfið á Íslandi er nú um aldarfjórðungsgamalt og það hefur ekki sætt heildarendurskoðun síðan á tíu ára afmælinu sem var um síðustu aldamót. Lög um almenn vörugjöld eru í grunninn frá árinu 1987 og byggjast upphaflega á hugmyndafræði um sértæka neyslustýringu.

Fljótlega eftir að ég kom í fjármála- og efnahagsráðuneytið setti ég af stað vinnu við heildarendurskoðun á lögum um virðisaukaskatt og vörugjald. Til upplýsingar má lesa um þessa vinnu í ítarlegri fréttatilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér þann 21. febrúar sl. Yfirskrift verkefnisins var: Einfaldara og skilvirkara virðisaukaskatts- og vörugjaldakerfi. Um heildarendurskoðun er að ræða, eins og áður sagði, og er henni ætlað að standa út kjörtímabilið.

Ég vil nota þetta tækifæri til að árétta að þetta frumvarp er einungis fyrsti áfangi í þessari vinnu. Fjölmargar sérreglur þarfnast skoðunar í þessu kerfi og ég tel fulla ástæðu til að yfirfara virðisaukaskattskerfið í heild sinni. Sem dæmi vil ég nefna að um virðisaukaskatt gilda ýmsar reglugerðir sem ég tel að þarfnist endurskoðunar, ekki síst vegna breyttra viðskiptahátta.

Viðskiptaumhverfið í heiminum öllum hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og sem dæmi er hvers kyns sala á rafrænni þjónustu að verða stærra og stærra hlutfall af allri seldri þjónustu. Ef við gefum þessu ekki gaum bíður okkar það eitt að sitja eftir hvað skatttekjur varðar.

En hver skyldi vera ein meginástæðan fyrir því að við ákváðum að ráðast í endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu? Jú, ástæðan er einfaldlega sú að undanfarin ár hafa okkur borist endurteknar ábendingar um að íslenska virðisaukaskattskerfið sé ekki nægilega skilvirkt, kerfið sé ekki bara vel undir meðaltali hvað skilvirkni varðar þegar það er borið saman við lönd í Evrópu heldur líka þegar það er borið saman við lönd innan OECD. Þetta hefur ítrekað komið fram bæði í gögnum frá OECD og skýrslum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í ljósi þess að virðisaukaskattur er einn mikilvægasti tekjustofn ríkissjóðs mat ég það svo að rétt væri að bregðast við þessum ábendingum. Eitt af því fyrsta sem ráðist var í við heildarendurskoðunina var að fá sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að leggja mat á lög um virðisaukaskatt, lög um almenn vörugjöld og framkvæmd þeirra. Þessi vinna sjóðsins fór fram á fyrri hluta þessa árs. Í framhaldinu skrifuðu sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skýrslu um þessa úttekt sína og var hún birt ráðuneytinu í maí á þessu ári. Þessi skýrsla er fróðleg lesning sem því miður staðfestir það sem áður hafði komið fram um óskilvirkni íslenska virðisaukaskattskerfisins. Skýrslan verður birt á vef ráðuneytisins á næstu dögum.

En ef ég vík nú að frumvarpinu sjálfu felast í því eftirfarandi tillögur:

Í fyrsta lagi að almenna skatthlutfallið í virðisaukaskatti lækki úr 25,5% í 24% þann 1. janúar næstkomandi.

Í öðru lagi að lægra skatthlutfallið í virðisaukaskatti hækki úr 7% í 12% þann 1. janúar 2015.

Í þriðja lagi að undanþágum frá skattskyldu í virðisaukaskatti verði fækkað og fólksflutningar í afþreyingarskyni verði gerðir skattskyldir í lægra skattþrepi virðisaukaskatts frá og með 1. maí 2015. Óbreytt er að almenningssamgöngur, leiguakstur fólksbifreiða, skólaakstur, akstur í hvers kyns dagvistun og sjúkraflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti.

Í fjórða lagi að almennt vörugjald verði afnumið 1. janúar 2015. Um er að ræða vörugjald af ýmsum raftækjum og stærri heimilistækjum, byggingarvörum, bílavarahlutum og vörum sem innihalda sykur og sætuefni.

Í fimmta lagi að fjárhæðir barnabóta verði hækkaðar um 13%, auk 2,5% verðlagsuppfærslu og að skerðingarhlutföll vegna tekna foreldra verði hækkuð um eitt prósentustig.

Hvað virðisaukaskattinn varðar er rétt að halda því til haga að allt frá árinu 1992 til ársins 2007 voru skatthlutföllin þannig á Íslandi að almenna skatthlutfallið var 24,5% en lægra skatthlutfallið var 14%. Verði frumvarpið að lögum mun almenna hlutfallið verða það lægsta frá upphafi og lægra hlutfallið tveimur prósentustigum lægra en það var lengst af.

Hvað almenna skatthlutfallið varðar þarf einnig að hafa í huga að skattskyldan í virðisaukaskatti er mjög víðfeðm og nær til allrar vörusölu í atvinnuskyni með örfáum undantekningum og mjög margra þjónustugreina. Svo eitthvað sé nefnt fellur í almenna skatthlutfallið sala á fatnaði og skóm, hreinlætisvörum, lyfjum, hvers kyns húsbúnaði og eldsneyti. Þá er þjónusta símafyrirtækja í almenna skatthlutfallinu sem og hvers kyns þjónusta iðnaðarmanna.

Hvað almennu vörugjöldin varðar varð niðurstaðan sú að leggja til að þau yrðu afnumin í heild sinni.

Ég tel að lögin um almennt vörugjald séu á vissan hátt barn síns tíma. Þetta á ekki síst við um þann hluta þeirra er snýr að gjaldtöku á ýmis raftæki, byggingarvörur og varahluti. Sú gjaldtaka byggðist á sjónarmiðum um neyslustýringu og tekjuöflun en nær nú orðið nánast eingöngu til vöruflokka sem tilheyra öllum heimilum. Eldavélar, þvottavélar, kæliskápar og sjónvörp eru ekki lengur munaðarvara sem þykir rétt að sporna við kaupum á.

Hvað vörugjaldið á sykur og sætuefni varðar hefur það ekki reynst eins og til var ætlast. Markmiðið um bætta lýðheilsu er gott og gilt og ekki síður brýnt nú en áður, en því markmiði verður að ná með öðrum aðferðum. Í fyrsta lagi hefur framkvæmdin reynst torveld, ekki síst vegna þess að gjaldtakan miðast við innihaldslýsingu vara. Í öðru lagi hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemdir við gjaldið vegna þess að hún telur líklegt að það leiði til mismununar milli innlendrar framleiðslu og innfluttrar. Í þriðja lagi var talið nauðsynlegt út frá jafnræðissjónarmiðum að leggja gjaldið jafnt á sykraðrar vörur og vörur sem innihalda sætuefni.

Síðast en ekki síst liggur ekkert fyrir um það að gjaldið, í formi 21 kr. á hvern lítra af gosdrykk t.d., dragi úr neyslu þeirra svo heitið geti. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur mælistiku sína á þessa gjaldtöku eru viðvörunarorðin nokkur og almennt virðist það viðurkennt að gjaldtakan þurfi að vera mun beittari til að hafa tilætluð áhrif. Reynsla nágrannaþjóðanna af gjaldtöku sem miðast við innihaldslýsingu vara er heldur ekki góð.

Við vinnslu frumvarpsins fóru fram ítarlegir útreikningar á áhrifum þess á ráðstöfunartekjur og verðlag að minnka bilið milli skattþrepa í virðisaukaskatti og fella brott almennu vörugjöldin. Uppleggið var að kerfisbreytingin á virðisaukaskatti og vörugjöldum ætti að vera hlutlaus hvað tekjur ríkissjóðs varðar og að hún ætti fremur en hitt að auka ráðstöfunartekjur heimila. Þetta er af ýmsum ástæðum ekki einfaldur útreikningur. Bæði er skattskylda í virðisaukaskatti víðfeðm og nær til fjölmargra vörutegunda og svo er vörugjaldakerfið flókið. Vegna þessa flækjustigs var miðað við að láta heimilin njóta vafans ef einhver væri og var jafnframt reynt að horfa til ólíkra fjölskyldumynstra.

Áhrifin á einstakar fjölskyldur eru nokkuð mismunandi eins og sést á dæmunum sem birt eru í fylgiskjali með frumvarpinu, en í öllum tilvikum var aðgerðin þannig stillt að ráðstöfunartekjur mundu aukast. Vegna þess að kannanir hafa sýnt að barnafjölskyldur eyða meira í mat að jafnaði en aðrar var ákveðið að ráðast í þá mótvægisaðgerð sérstaklega að hækka barnabætur hjá þeim tekjulægstu.

Hvað verðlagsáhrifin varðar er niðurstaðan sú þegar allt er lagt saman að aðgerðin geti lækkað vísitölu neysluverðs um allt að 0,2%. Til samanburðar má rifja það upp hér að þegar sykurskatturinn var á sínum tíma hækkaður með sérstakri aðgerð á síðasta kjörtímabili til þess að afla ríkissjóði tekna og til þess að ná þeim yfirlýstu lýðheilsumarkmiðum sem ég hef aðeins vikið að var talið að vísitala neysluverðs mundi hækka um 0,1% og skuldir heimilanna af þeim sökum um rúman 1 milljarð. Hægt væri að nefna dæmi um ýmsar algengar neysluvörur sem á þeim tíma hækkuðu um 3%, margt af því sem t.d. finnst í mjólkurkælum.

Hér er lagt upp með það að áhrifin á verðlag verði jákvæð, þ.e. geti stuðlað að því að vísitala neysluverðs lækki.

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem hér stendur að nokkuð hefur verið um gagnrýni á þessa útreikninga ráðuneytisins en ég tel að ekki séu komnir fram útreikningar sem sýni fram á að forsendur frumvarpsins standist ekki. Svona útreikningar eru nokkuð tímafrekir og krefjast þess að fyrir liggi bæði tölulegar upplýsingar og góð þekking á virðisaukaskatts- og vörugjaldakerfinu. Það er látinn fylgja með frumvarpinu í eins konar fylgiskjali fjöldinn allur af dæmum um mismunandi áhrif fyrir ólíka tekjuhópa og fjölskyldumynstur, eins og ég hef áður rakið, og ég hvet alla sem vilja kynna sér málið gaumgæfilega að fara yfir þau dæmi.

Það er ekki hægt að láta undir höfuð leggjast að benda á að tekjulægsti hópurinn eyðir hærra hlutfalli tekna sinna í langflestar neysluvörur eins og sjá má af neyslukönnun Hagstofunnar og Viðskiptaráð sá sig tilknúið að benda á eftir að VR og ASÍ höfðu gagnrýnt aðgerðina. Þar kjósa forsvarsmenn þessara fyrrgreindu samtaka að líta fram hjá heildaráhrifum aðgerðanna sem verða til þess að styrkja ráðstöfunartekjur heimilanna og þeirra tekjulægstu mest.

Umræðan um tekjulægstu hópana hefur að allt of miklu leyti snúist um það hvað tekjulægstu hóparnir verja háu hlutfalli af launatekjum sínum í matarinnkaupin ein og sér. Hér skiptir miklu að átta sig á nokkrum mikilvægum þáttum.

Í fyrsta lagi. Þegar við ræðum um heildaráhrif af þessum breytingum tökum þá alla myndina með í umræðuna. Tökum ekki einungis þau 15% af ráðstöfunartekjunum sem almennt ganga til matarkaupa. (ÖS: 20% fyrir tekjulægsta hópinn.) Horfum líka á þann hluta neyslunnar sem fer til annarra hluta en matarinnkaupa og hvaða áhrif breytingarnar hafa á verðlag þess þáttar. Veltum því einnig fyrir okkur hversu raunhæft, marktækt eða skynsamlegt sé yfir höfuð að horfa á dæmin sem við höfum út frá launatekjunum einum og sér. Í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað undanfarna daga hefur því til dæmis brugðið fyrir að horft sé á stöðu námsmanna og því stillt upp að námsmenn hafi, sem dæmi, 100 þús. kr. í launatekjur en aðrar ráðstöfunartekjur byggi á lántöku. Svo er matarkostnaðurinn reiknaður út sem hlutfall af launatekjunum en ekki sem hlutfall af ráðstöfunartekjunum. Það er augljóst að með slíkri aðferðafræði kemur sá þátturinn sem fjallar um matarinnkaupin verr út borið saman við aðra hópa, þegar einungis er horft á launatekjurnar.

En það á líka við um alla hina neysluþættina vegna þess að námsmaður í þessari stöðu, sem er með 100 þús. kr. í launatekjur á mánuði en 200 þús. kr. í neyslu, eyðir tvöföldum launatekjum sínum og er á þeim tíma að framfleyta sér með lántöku.

Ég vil því setja ákveðinn fyrirvara við að þetta sé rétti mælikvarðinn til þess að komast að niðurstöðu um það hvernig aðgerðir koma við matarinnkaup ólíkra launahópa.

Úttekt Hagstofunnar horfir á útgjaldahliðina og spyr: Hversu hátt hlutfall útgjaldanna fer til matarinnkaupa? Og þar kemur í ljós að munurinn er afskaplega lítill. Það segir okkur í fyrsta lagi að það er ekki við því að búast að hlutfallslega komi hækkun neðra þrepsins verr við lægri tekjuhópana en þá hærri, en segir okkur líka aðra mikilvæga sögu sem er ein helsta forsenda þess að ég tel rétt að hækka neðra þrepið, jafnvel þótt við séum með viðkvæmar neysluvörur í því þrepi, og hún er þessi: Með því að halda lægra þrepinu þetta lágu erum við að ívilna tekjuhærri hópunum langt umfram hina tekjulægri. Það byggir á því að þeir eyða að jafnaði miklu fleiri krónum í matarinnkaup, kaupa dýrari vöru með meiri skattaívilnun, ef maður vill líta þannig á það, í krónum talið en tekjulægri hóparnir. Þetta er meðal meginástæðna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, OECD og aðrir aðilar sem fjalla helst um samanburð á skattkerfum milli landa benda á að það að hafa mat í sérstaklega lágu þrepi sé óskilvirk leið ef hún er hugsuð til þess að ná fram tekjujöfnuði í samfélaginu.

Í sjálfu sér er sú skoðun alveg hlutlaus hvað skattprósentuna varðar, það er einungis bent á þá staðreynd að ef markmiðið er að auka tekjujöfnuð í landinu eru aðrar leiðir betur til þess fallnar. Það er á því sem þessar tillögur byggjast að beita frekar öðrum aðferðum. Ég hef rakið það hér sérstaklega að vegna þess að matarinnkaup eru hlutfallslega hærri hjá barnfleiri fjölskyldum þykir rétt að auka í við barnabætur, bæta þar í, og ég tek það fram að þær tölur sem birtast um barnabæturnar í fjárlagafrumvarpinu bera ekki með sér alla þá hækkun sem fyrirhuguð er. Það er gert ráð fyrir því að við 2. umr. fjárlaga komi viðbótarmilljarður í barnabæturnar og að við munum þannig bæta bæði upp til verðlags upp á 2,5% og síðan setja 1 milljarð í viðbót í barnabætur.

Ástæðan fyrir því að þetta kemur ekki fram í fjárlagafrumvarpinu er sú hin sama og ég hef áður farið yfir; þegar verið var að ganga frá fjárlagafrumvarpinu var tekjuöflunarhliðin einfaldlega ekki alveg tilbúin og það er skýringin á því að greint er frá áformum um breytingar á virðisaukaskattskerfinu með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu, en á bls. 197 er þó vakin athygli á því að við lokafrágang á tekjuöflunarfrumvörpunum hafi áherslur verið að breytast. Sá fyrirvari er sleginn þar.

Þetta vildi ég hafa sagt vegna umræðunnar um barnabæturnar, að við 2. umr. er verið að tala um að ganga lengra en sjá má í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram.

Það er mjög mikilvægur þáttur að það séu önnur tæki sem við búum yfir betur til þess fallin að ná fram tekjujöfnunareiginleikunum og auk þess að bæta í barnabætur, í heildarfjárhæðina, eins og ég rakti áðan, er gengið út frá því að skerðingarhlutföllin verði hækkuð örlítið. Það þýðir að við erum að færa fjármagn frá tekjuhæstu hópunum sem enn njóta barnabóta neðar í tekjustigann og beina stuðningnum þangað.

Það hefur komið fram í umræðunni, m.a. frá BSRB, og verið gagnrýnt að barnabætur taki skerðingum allt of snemma og mjög lág laun séu undir þessar skerðingarreglur seld. Það má alveg taka undir það í sjálfu sér að það er erfitt að finna rétta jafnvægið í þessu en við vitum það líka sem höfum fengist við að útfæra skerðingarreglur að eftir því sem við höfum skerðingarnar grimmari vaxa jaðarskattarnir meira. Það er í sjálfu sér engin einföld leið til að takast á við þann þátt málsins önnur en sú að bæta í. Í sjálfu sér erum við að gera hvort tveggja í þessu frumvarpi. Við erum bæði að bæta í heildarfjárhæðina og við erum að auka skerðingarnar þannig að við erum á tvennan hátt að tryggja það betur en gildir í núverandi kerfi að stuðningurinn skili sér til tekjulægri hópanna.

Heilt yfir skiptir sköpum, vilji menn á annað borð efna til yfirvegaðrar, málefnalegrar umræðu um heildaráhrif þessa máls, að fara rétt með. Það er til dæmis rangt sem oft hefur verið sagt úr þessum ræðustól hér síðustu daga, og síðast hlustaði ég á það í umræðunni um störf þingsins, að matarverð muni hækka um 5% við þessar breytingar. Það er einfaldlega rangt. Ástæðan fyrir því er sú að vörugjöld á matvæli falla niður. Þess vegna mun virðisaukaskatturinn leggjast á lægri stofn. Við áætlum að matarverð geti af þessum sökum mögulega hækkað um í kringum 2,5%. Ég hef séð aðrar tölur í umræðunni, ég hef séð að Viðskiptaráð áætlar að matarverð muni hækka um 1,6%.

Aðrar vörur lækka meira. Raftækin lækka meira, byggingarvörur lækka verulega, varahlutir í bíla o.s.frv. Við áætlum til dæmis að byggingarkostnaður muni lækka um heilt prósent, á bilinu 1,1–1,2%. Það er tiltölulega ótengt tegundum bygginga, hvort sem um er að ræða einbýli, fjölbýli, raðhús, parhús. Í úttekt sem unnin hefur verið af verkfræðistofu fyrir fjármálaráðuneytið er niðurstaðan ávallt hin sama eftir þessum ólíku byggingarformum. Byggingarkostnaður lækkar um 1%. Til langs tíma ætti það til dæmis að skila sér í lægri leigu, a.m.k. ef við búum við skilvirkan markað. Í dæmigerðu raðhúsi, sem var tekið fyrir í einu dæmanna sem við fengum útreiknað, sem kostar 42 milljónir að byggja lækkaði byggingarkostnaðurinn um rétt um 0,5 milljónir. Þá hefur ekki verið tekið tillit til innbúsins, það er bara byggingarkostnaðurinn á húsnæðinu sjálfu.

Fyrir ungt fólk vitum við að það skiptir sköpum hvað það kostar síðan að flytja inn. Allir hafa eflaust sína sögu að segja af því hvernig menn hafa þurft að þreyja þorrann og fresta því að kaupa gólfefni eða fresta því að ganga frá einhverjum hlutum í húsnæði sem þeir eru nýfluttir í. Það skiptir verulegu máli fyrir ungt fólk í landinu að gera það sem við getum til að draga úr kostnaði við húsnæði og byggingarkostnaður er þar einn mikilvægur liður, að ekki sé rætt um alla þá þætti sem eru í efra þrepinu. Mér finnst hafa verið allt of lítið úr því gert hvað það eru margar nauðsynjavörur í efra þrepinu. Ég rakti það stuttlega áðan hversu margir mikilvægir þættir í daglegri neyslu landsmanna eru í efra þrepinu, en síðan er það alveg sérstakt umræðuefni hvað á á endanum að lenda í efra þrepinu, hvað á á endanum að vera í lægra þrepinu eða yfir höfuð að vera undanskilið. Það er hægt að hafa ólíkar skoðanir á því. Ég hef sjálfur staðið hér og mælt fyrir því að einstakar vörutegundir væru fluttar á milli þrepa til að ná fram einhverjum ákveðnum áherslum, t.d. þegar við sáum á öllum skuldaúttektartölum og gögnum um ráðstöfunartekjur heimilanna að það voru sérstaklega barnafjölskyldur sem áttu erfitt með að láta enda ná saman um hver mánaðamót hér á eftirhrunsárunum.

Þetta var ljóst til dæmis af skýrslum frá Seðlabankanum. Við þær aðstæður sagði ég: Gerum það sem við getum til að létta undir með barnafjölskyldum. Við getum tekið barnavörur og fært í neðra þrepið. Það sem við erum að ræða í dag er auðvitað miklu stærra og mikilvægara mál fyrir heildarhag heimilanna, enda er tekjutap ríkisins vegna þessa máls beint um 2,7 milljarðar, reiknað, og svo setjum við 1 milljarð í viðbót í stuðning í barnabótakerfinu sem eru margfalt hærri tölur en við höfum verið að senda út í stuðning til heimilanna ef við höfum farið í þá aðgerð eina að færa einhvern vöruflokk á milli þrepa.

Mér finnst það líka vera sjálfsagður hluti umræðunnar hér um virðisaukaskattskerfið hvort menn leggja yfir höfuð eitthvað upp úr því að vera með skilvirkt kerfi. Mælikvarðinn á skilvirkt kerfi, samkvæmt þeim stöðlum sem unnið er eftir, er að hann mælir það hversu mikið bil er á milli þrepanna og hversu margar undanþágur eru frá almenna þrepinu. Þannig sjáum við, eins og ég hef rakið, að íslenska virðisaukaskattskerfið telst á þennan mælikvarða vera mjög óskilvirkt. Það segir okkur ekkert í sjálfu sér um tekjurnar sem kerfið skilar, það segir okkur að það eru rangir hvatar í kerfinu vegna þess að bilið er mjög mikið milli þrepanna og það segir okkur að það eru miklar undanþágur í kerfinu.

Ef við horfum hins vegar bara á tekjurnar sem kerfið skilar eru tekjurnar í íslenska virðisaukaskattskerfinu vel yfir meðaltali. Það er vegna þess að við höfum lagt áherslu á að afla ríkinu tekna með neyslusköttum. Það gefur okkur þá færi á að ganga skemur með annarri skattlagningu. Ég vil láta það koma fram hér undir lok máls míns að ég tel að með því að gera neysluskattskerfin skilvirkari sé verið að ryðja brautina til þess að létta undir með heimilunum í annarri skattlagningu og þá sérstaklega í beinni skattlagningu, eins og t.d. birtist í tekjuskattskerfinu.

En við getum ekki búið við það að virðisaukaskattskerfið gefi eftir, eins og tölurnar sýna okkur, og látið okkur það í léttu rúmi liggja og fara síðan að veikja önnur tekjuöflunarkerfi á sama tíma. Það væri ekki sérstaklega ábyrg skattstefna. Ég tel skynsamlegri skattstefnu til lengri tíma að vera með sterk neysluskattskerfi, einföld, sanngjörn kerfi sem eru með skýrar reglur, sem fæstar undanþágur, þó að ég telji ekki raunhæft að sinni að gera frekari breytingar hvað varðar það að draga úr mun á milli þrepanna, og að það sé gegnsætt og mismuni ekki ólíkum atvinnugreinum. Sterkt neysluskattskerfi sem býr ekki til óeðlilega hvata eins og þá að sækja vöru eða eftir atvikum þjónustu út fyrir landsteinana. Við höfum svo sem gert ákveðna tiltekt í þeim efnum og nú erum við að stíga stærra skref með afnámi almenna vörugjaldakerfisins, en þess voru dæmi á sínum tíma að vinsælu iPodarnir sem voru með tónlist á, að níu af hverjum tíu slíkum tækjum voru keypt í útlöndum vegna þess hvernig neysluskattarnir voru stilltir á Íslandi.

Það er reyndar þegar frágengið mál og ekki hluti af því sem við erum að gera hér, en þetta sýnir okkur hvernig rangir hvatar í kerfinu geta haft bein áhrif á hegðun fólks.

Sterkt neysluskattskerfi og svo hóflega beina skatta, þannig sé ég fyrir mér að við eigum að byggja upp skattkerfið.

Ég mun að sjálfsögðu fagna allri málefnalegri umræðu um áhrifin af þessum tillögum. Við erum að gera breytingar sem leiða til þess að við verðum með lægsta efra þrepið á Norðurlöndunum, þ.e. ekkert Norðurlandanna er með lægra efra þrep, ekkert Norðurlandanna með lægra neðra þrep á matvörum. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég ætla að mælast til þess að þessu frumvarpi verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.