144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist á hv. þingmanni að hún sé sammála þeirri skoðun að neysluskattskerfið og virðisaukaskattskerfið sé óheppilegt til að ná fram tekjujöfnunaráhrifum. Þetta var kannski ekki alveg skýrt. En það er spurt: Hvaða leiðir eru þá færar?

Þær eru einkum í gegnum bótakerfin. Við höfum í fyrsta lagi almannatryggingakerfið sem er nokkuð öflugt á Íslandi. Við höfum síðan sérstök bótakerfi eins og vaxtabótakerfið, sem er með talsvert miklum tekjutengingum. Við höfum líka barnabótakerfið sem ég nefndi hér til sögunnar.

Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að með þeirri hækkun sem mælt verður fyrir við 2. umr. fjárlaga upp á 1 milljarð hafi barnabætur ekki náð árinu 2013 vegna þess að fyrir árið 2014 var varin þá nýleg hækkun barnabóta sem gilti á árinu 2013. Og nú erum við bæði að hækka upp til verðlags og bæta heilum milljarði í.