144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. ráðherra bað um prinsipp. Þetta eru mín prinsipp, þetta er það sem ég legg til grundvallar, og það er rangt sem hæstv. ráðherra segir að það sé lítill munur eftir tekjuhópum á því hvað menn verja miklu af ráðstöfunartekjum sínum til matar.

Það er að minnsta kosti klárt að hæstv. ráðherra hefur ekki farið á heimasíðu ASÍ og lesið könnun sambandsins. Þar kemur algjörlega skýrt fram að tekjulægsti hópurinn ver fimmtungi af ráðstöfunartekjum sínum til matarinnkaupa, tekjuhæsti hópurinn tíund. Munurinn er 100% þar á þannig að það er alveg ljóst, hvernig sem menn reikna þetta út, að það hlýtur alltaf að koma verst við þá tekjulægstu.

Þá skulum við fara í mótvægisaðgerðir, segir hæstv. ráðherra. Gott og vel, þau dæmi sem hann rekur taka ekkert á lægst launuðu hópunum. Það er mitt prinsipp. Það er alveg prýðilegt að fólk geti byggt sér raðhús fyrir 42 millj. kr. og að byggingarkostnaður lækki um hálfa milljón. Það hjálpar hins vegar ekki öryrkjanum og það hjálpar ekki ellilífeyrisþeganum. Það er það fólk sem ég er að hugsa um. Hæstv. ráðherra verður þá að beita betri röksemdafærslu til að (Forseti hringir.) telja mér trú um það.