144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér leiðist í fyrsta lagi þegar menn eru með jafn miklar alhæfingar og oft koma hér fram í umræðu um stöðu öryrkja. Auðvitað eru ekki allir öryrkjar í þeirri stöðu að vera meðal þeirra sem eru með 5% lægstu (Gripið fram í.) ráðstöfunartekjur í landinu. Ég get sagt hv. þingmanni það að ég er alveg sannfærður um að öryrkjar eiga til dæmis þvottavél, almennt, og almennt er sjónvarpstæki á heimilum þeirra (ÖS: Og mikið rafmagn …) og þeir munu þannig njóta góðs af þeim breytingum sem við erum að gera á vörugjöldum.

Ég vil líka segja að þegar rætt er um tekjulægstu hópana sem verja hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna til matarinnkaupa er í raun og veru hið sama hægt að segja um flesta aðra þætti sem þeir neyta ef menn horfa á þetta út frá ráðstöfunartekjunum. Þeir sem lifa á lántökum, eins og dæmi ASÍ sýnir, eru að verulegu leyti að byggja afkomu sína á því að taka lán og þess vegna verður dæmið ekki samanburðarhæft við aðra.

Það sem skiptir máli er að horfa á (Forseti hringir.) hlutfall af útgjöldum. Það er það sem skiptir máli, ella eru menn svo fljótt komnir með dæmi um þá (Forseti hringir.) sem eyða 150–200% af tekjum sínum í neyslu.