144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því þegar ákveðið var að bera niður með þessum hætti í undanþágunni varðandi fólksflutninga í afþreyingarskyni, sem ég held að hafi legið í loftinu og flestir verið sammála um að ætti að taka á, af hverju niðurstaðan hafi orðið að nema staðar nákvæmlega þar sem var gert. Ég tek fram að ég er fylgjandi því, og þótt fyrr hefði verið, en þá koma upp önnur landamæri sem lúta að ýmiss konar afþreyingu eða sölu til dæmis til ferðamanna ef við erum að hugsa um þann geira. Það má nefna Bláa lónið sem væntanlega verður áfram án virðisaukaskatts en er það ekki afþreying til ferðamanna? Ekki er það hefðbundin sundlaug. Hvað með leiðsögn og þjónustu við veiðimenn á veiðihótelum? Ég hef ansi mikinn grun um að sú þjónusta sé yfirleitt seld án virðisaukaskatts sem veiðileyfi.

Að hinu leytinu langar mig að spyrja út í gildistökuákvæðin eða aðlögunartímann. Það var haft hátt um það hér að breytingar sem þá voru í farvatninu gagnvart ferðaþjónustunni hefðu ekki nógan aðlögunartíma. Nú á að hækka virðisaukaskattinn á gistinguna með örfárra mánaða fyrirvara. Það eru sömu menn og hömuðust (Forseti hringir.) gegn því og felldu það úr gildi í fyrra. Hefur hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra algerlega skipt um skoðun hvað þetta varðar með aðlögunartímann fyrir ferðaþjónustuna?