144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og út af fyrir sig skil ég alveg þá nálgun að reyna að aðgreina þetta á grundvelli þess hvort um er að ræða afþreyingu, þjónustusölu af því tagi til ferðamanna. En þá þyrftu menn helst að skoða það svið og ekki bara einangra það þröngt við það sem hefur hingað til sloppið hjá virðisaukaskatti af því að það hékk á fólksflutningum sem var auðvitað mjög skondið.

Varðandi gildistökuna, já, þá hlýtur að mega að grafa upp einhverjar ræður frá því fyrir ekki svo löngu þar sem menn höfðu af þessu alveg dauðans áhyggjur. Þingið setti sitt mark á afgreiðsluna á því máli og lengdi aðlögunartímann. Nú er verið að fara nokkurn veginn í sömu hækkun og niðurstaðan átti að verða, þ.e. 12% í staðinn fyrir 14% með gistinguna, með örfárra mánaða fyrirvara.

Það má líka velta fyrir sér með þessa afþreyingarsölu sem auðvitað byggir á verðskrám sem kynntar eru og gefnar út að þetta á þó ekki að fá meiri aðlögun en fram til 1. maí. (Forseti hringir.) Ég hef heyrt þau sjónarmið frá mörgum í greininni að sama gildistaka og fyrirhuguð var (Forseti hringir.) hið fyrra sinni, 1. september, að hausti, væri heppilegri tími.