144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrirvarana verð ég að halda því til haga að sú vinna sem er grundvöllur þessarar tillögu fór af stað í febrúar og ég hef í sjálfu sér talað fyrir því allt þetta ár að ég stefndi að því að hækka neðra þrepið og lækka efra þrepið. Vissulega hefur ekki dugað að hlýða á almenn áform í því efni til að ákveða verðskrá strax á næsta ári, en að minnsta kosti hefur ferðaþjónustan vitað af því að breytingar væru í farvatninu.

Hversu langan aðlögunartíma á að gefa? Það er alltaf matsatriði. Við þurfum að finna jafnvægið á milli þess að ná fram þeim breytingum sem við ætlum okkur og að taka nægilegt tillit til ferðaþjónustunnar, en ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður kannist við þá tilfinningu að við séum dálítið að hreyfa okkur í sírópi þegar árið 2014 fer í að ákveða hvað við ætlum að gera og árið 2015 í að bíða eftir því að greinarnar séu tilbúnar að taka við breytingunum.