144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi fullyrðingar um að vaxtabótakerfið og barnabótakerfið hafi verið skorin niður þá er það einfaldlega ekki rétt. En barnabætur voru vissulega skornar niður mjög hressilega á síðasta kjörtímabili, þær fóru niður í 8,2 milljarða árið 2012, höfðu verið 9,3 milljarðar árið 2011, fóru svo í 10,7 milljarða árið 2013. Þetta eru allt tölur á verðlagi ágústs síðastliðins, 10,7 milljarðar árið 2013 en verða 11 milljarðar á næsta ári Það þarf ekkert að ræða það að barnabætur eru að hækka með þessu frumvarpi, þær hækka um milljarð frá því sem gilti í fyrra.

Aftur að tekjulágum. Tekjulágir nota allar ráðstöfunartekjur sínar í neyslu, allar. Þess vegna er alveg sama hvort við horfum á matvöru eða aðra flokka, að jafnaði fer hærra hlutfall ráðstöfunarteknanna í neyslu hjá tekjulágum. Það gildir ekki bara um matvöruna sem menn vilja einblína á í þessari umræðu, sem er vissulega að hækka. Það gildir líka um alla hina neysluna sem er í öðrum flokkum sem eru að lækka. Þess vegna njóta tekjulágir umfram aðra lækkana á öðru því sem lækkar í þessu frumvarpi. Þeir njóta hlutfallslega meiri ávinnings af lækkununum í frumvarpinu en aðrir tekjuhópar.

Af þeirri ástæðu hefur Viðskiptaráð til dæmis reiknað það út að ráðstöfunartekjur lægstu hópanna, þeirra sem eru með hæsta neyslu sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, vaxi meira, að kaupmáttaraukningin verði meiri á ráðstöfunartekjur hjá tekjulágum en hinum. Þetta er grundvallaratriðið.