144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að það sé til skoðunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að endurskoða fyrirkomulag hvað varðar virðisaukaskatt. Sumt af því hefur lengi legið í loftinu að þyrfti að gera, samanber þann frumskóg ef kalla má sem skattlagning innan ferðaþjónustunnar og tengdra greina hefur verið. Það er því ekki af andstöðu við það sem ég hlýt að lýsa mig ósáttan við ýmislegt og reyndar flest í þessu frumvarpi, því miður. Ég hefði gjarnan viljað taka þátt í að ræða breytingar í þeim efnum sem ég hefði talið standa góð og gild rök fyrir.

Þar á meðal vil ég segja að það sé að sjálfsögðu gilt sjónarmið að ekki sé heppilegt að hafa svona langt bil á milli virðisaukaskattsþrepanna. Það er gott að núverandi stjórnarflokkar uppgötva það loksins. Má ég þá minna á að þetta eru nákvæmlega sömu flokkar og réðust í hina mislukkuðu lækkun á árinu 2007. Það er auðvitað kostulegt að standa hér, herra forseti, þegar öllu er snúið á haus. Flokkarnir, sem í miðri þenslunni fóru í þá óviturlegu ráðstöfun að taka lægra þrepið úr 14% og niður í 7% og láta gistingu og þjónustu veitingahúsa og annað slíkt fylgja með matnum og menningunni þangað niður við þær vitlausustu efnahagsaðstæður sem hugsast gat, í þenslunni sem þá var, það var olía á eldinn, þeir koma nú hingað ekki mörgum árum seinna og vilja snúa dæminu við. Flokkarnir, sem hömuðust hér gegn því að hótelgisting færi upp í 14% og yrði sérstakt þrep í virðisaukaskatti, felldu það úr gildi nýkomnir til valda í fyrrasumar en koma nú og leggja til að hækka virðisaukaskatt á gistingu, að vísu upp í 12%. Það hefur ýmislegt snúist við á skömmum tíma.

Langstærsta álitamálið í þessu er að sjálfsögðu spurningin um skattlagningu þessara brýnu lífsnauðsynja, matvæla, rafmagns og hita og menningar því að ég lít líka á hana sem lífsnauðsyn hverju þroskuðu samfélagi. Þar eru rök sem ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki tommað gegn.

Það er alveg ljóst að tekjulægsta tíundin í samfélaginu eyðir mun hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna í mat. Það liggur fyrir, ég held að það verði ekki hrakið. Vandinn er sá að dæmi ráðuneytisins og málflutningur ráðherrans byggir allur á meðaltölum. Allt er þetta meðaltalanálgun. Það er út af fyrir sig rétt að ef við erum með eina fjölskyldu sem þarf að kaupa 3–5% dýrari mat en svo í næstu götu eða í fínna hverfi er önnur fjölskylda sem stekkur á tækifærið og kaupir flatskjá þá koma þær kannski út á sléttu. Þetta eru tvær fjölskyldur, þetta er ekki sama fólkið. Innan meðaltalanna verða alltaf jaðartilvik.

Tekjujöfnunarrökin, við skulum segja tryggingarökin fyrir tekjulægstu hópana eru enn til staðar. Þau eru ekkert einhlít, ég viðurkenni það alveg. Í mínum huga er allt of grunn röksemdafærsla að ætla að slá lágt virðisaukaskattsþrep á matvæli og aðrar brýnar lífsnauðsynjar af bara af því að það sé ekki skilvirkasta tekjujöfnunartæki sem til er. Gott og vel.

Það eru mörg fleiri mjög gild rök sem væntanlega standa til þess að eiginlega allar þjóðir sem við berum okkur helst saman við eru með, ef ekki eitt þá oft tvö lægri virðisaukaskattsþrep og sýna þannig stuðning við þá neyslu eða þær vörur sem þar eru, sem sagt miklu fleiri rök en bara þau að þetta eigi að jafna lífskjör. Ég tel þó að þau geri það í þeim tilvikum sem eru kannski mikilvægust af öllum, þ.e. við þær aðstæður fjölskyldna að þær eru í miklum erfiðleikum með að ná endum saman og verða auðvitað að setja matinn í forgang. Ef sá liður verður dýrari, hvað gerist þá? Hættan er sú að menn hörfi yfir í lakari vöru, ódýrari, lakari vöru og að þetta komi niður á gæðum matvælanna sem menn neyta. Það er líka hlutur sem kemur inn í þessi lýðheilsurök fyrir utan sykurinn.

Það er líka pólitísk ástæða fyrir því að ég ákvað tiltölulega ungur að árum, þrátt fyrir að ég skildi að mörgu leyti rökin fyrir einföldu neysluskattskerfi, að styðja lægra skattþrep á matvæli. Þeim stuðningi sem tekjulágu fjölskyldurnar þar með fá er betur varið í slíku lægra skattþrepi en í millifærslukerfi og bótum sem hægt er að svipta þær á hverju ári. Pólitískt er það bara þannig. Ætli hæstv. fjármálaráðherra sé nú ekki í þann veginn að kynnast því? Það er nefnilega skýr víglína að verja lága skattlagningu á mat og aðrar lífsnauðsynjar. Fjárhæðir barnabóta, millifærslur í almannatryggingakerfinu eða aðrar mótvægisaðgerðir eru miklu lausari í hendi. Það leiddi mig að þeirri niðurstöðu að lokum að sennilega væri best að verja þessa víglínu, lágan skatt á matvæli.

Auðvitað snýr allt hér öfugt. Hæstv. fjármálaráðherra er í hinu mesta basli með að útskýra fyrir okkur að það sé skynsamleg stefna miðað við alla upplýsingu nútímans um heilsu fólks að hækka verð á fiski, kjöti, grænmeti og mjólk en lækka það á sælgæti og gosdrykkjum. Hvers konar lýðheilsustefna er það? Hún er alveg galin, en það er það sem verið er að bjóða okkur hér upp á. Ég tel að hæstv. fjármálaráðherra sé að gera sér þetta enn erfiðara en hann þyrfti að gera með því að taka þetta svona saman í slengi. Þeir sem skrifuðu hinn margfræga texta á bls. 207 hafa haft aðeins meira pólitískt nef en ráðherrann, að láta nú sykurskattinn alla vega halda sér í bili á meðan grænmeti, fiskur, kjöt og mjólk voru hækkuð.

Hættan er sú að þetta leiði til neikvæðra breytinga á neysluvenjum þjóðarinnar og sérstaklega tekjulægri hópanna, að í staðinn fyrir ferska, óunna, holla matvöru, sem við eigum auðvitað hlúa að að sé neytt í landinu, komi ódýrara prótín og ódýrara kolvetni, unnar vörur með lakari gæðum, vatnsþynnt saltblönduð skinka í staðinn fyrir hreint álegg, kjötfars í staðinn fyrir kjöthakk o.s.frv. Þetta er veruleikinn. Ég er ekki að segja að þetta muni gerast í einhverjum stórum stökkum en þetta eigum við að hugsa um og vanda okkur því að á bak við tölurnar er líf fólks og verður á komandi árum og áratugum.

Rafmagn og heitt vatn. Það er líka spurning um hvort þetta séu ekki lífsnauðsynjar algerlega við hliðina á matnum. Rafmagnsreikningar eru um það bil síðustu reikningar sem menn borga ekki, ég tala nú ekki um á köldum svæðum þar sem menn hafa ekki einu sinni hitaveitu til að hita húsið. Þú vilt ekki krókna úr kulda! Matur og svona algjörar undirstöðunauðsynjar eru auðvitað fremstar í röðinni þegar reikningarnir eru borgaðir hjá þeim allt of stóra hluta heimilanna sem þarf að velta slíku fyrir sér. Það er bara veruleikinn. Hvað sem hver segir um að það séu þvottavélar, þurrkarar og flatskjáir og alls konar tæki inni á flestum heimilum í landinu þá eru sum þeirra gömul, sum þeirra eru ódýr og það er beðið með að endurnýja þau jafnvel svo árum skiptir ef vantar krónur til að kaupa mat, nesti í skólann handa börnunum og tómstundir þeirra og annað því um líkt. Það er því dauðans alvara á bak við þetta mál.

Að sjálfsögðu eru barnabætur að mörgu leyti skilvirkt tæki til að koma til móts við stóran hluta þessa hóps, það er rétt, eins og barnafjölskyldur þar sem matarútgjöldin verða meiri, fleiri eru í heimili, en það er ekki einhlítt. Við erum með þúsundir og aftur þúsundir fjölskyldna sem eru öðruvísi saman settar; elli- og örorkulífeyrisþega, þótt þeir eigi auðvitað sumir börn; námsmenn og einhleypa einstaklinga sem búa og hafa það kannski ekki allt of gott margir hverjir. Hvað með fráskilda karlmenn sem búa einhvers staðar einir og borga þrjú meðlög? Ætli veiti af að hlúa frekar að því að þeir geti borðað sæmilega hollan mat? Ég fæ engan botn í það, satt best að segja, að ætla að standa svona að þessu.

Ef menn ætla í alvöru að velta því fyrir sér að hækka lægra þrepið á virðisaukaskatti, sem ég skil rökin fyrir eins og ég sagði, þá held ég að mótvægisaðgerðir af allt öðrum toga eigi að koma til. Ég var standandi hissa þegar ég sá að hugmyndin var sú að nota tekjuaukann af því að hækka lægra þrepið, upp á 11 milljarða kr., að mestu leyti í að fella svo niður vörugjöld á hinn endann, þar með af sykri og gosdrykkjum, í staðinn fyrir það sem ég hef alltaf ímyndað mér að yrðu mótvægisaðgerðirnar, þ.e. barnabætur, persónufrádráttur og almannatryggingakerfið, til að ná til allra hópanna. Þegar ég var að skoða þetta svolítið á sínum tíma, fyrir 2–3 árum, á grundvelli einnar af fyrri skýrslum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þar sem þessu var velt upp, þá var gengið út frá því, herra forseti, að 2/3 af tekjuaukanum vegna hækkunar neðra þrepsins gengju til baka í mótvægisaðgerðir á breiðu sviði þannig að menn reyndu virkilega að mæta öllum sem yrðu fyrir áhrifum á hærra matarverði. Það er ekki hér, heldur er stærsti hluti tekjuaukans notaður í að mæta annars vegar lækkuninni á efra þrepinu og hins vegar niðurfellingu vörugjalda.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur talað mikið um að þetta sé ekki skilvirkt tæki til að jafna lífskjör. Það er auðvitað nærtækt að spyrja eins og ég hef þegar gert: Hvað telur þá hæstv. fjármálaráðherra vænlegast í þeim efnum? Ef við virkilega treystum því nú að þar stæði góður hugur á bak við, hér væri fjármálaráðherra í landinu sem væri einbeittur stuðningsmaður prógressívs tekjuskatts þá væri kannski á þá hlustandi en svo er ekki. Hefur ekki þessi hæstv. fjármálaráðherra látið í það skína að hann vilji fletja tekjuskattinn út aftur? Þá fer virkasta tekjujöfnunartækið þar með úr okkar höndum. Það er því ástæða til að staldra við í þessum efnum miðað við þá pólitík sem gefin hefur verið út um skattamál að þessu leyti. Mér finnst vanta dálítið botninn í þetta að ýmsu leyti.

Ég hef gert að umtalsefni í andsvari hér við hæstv. ráðherra gildistökuákvæðið um þann skamma fyrirvara sem er nú allt í einu talinn nægja til dæmis gistingunni að fá á sig hærri virðisaukaskatt. Öðruvísi mér áður brá. Ég hef ekki haft tíma til að leita í ræðum en ég yrði ekki hissa á því þótt þeir hv. þáverandi þingmenn Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson hefðu haldið einhverjar ræður um það hvers konar ósvinna það væri að ætla að skella þessu með litlum fyrirvara á menn á sínum tíma.

Ég vil líka taka undir það sem hér var nefnt af einum hv. ræðumanni. Ég varð mjög dapur í hjarta mínu þegar ég sá að það ætti að hverfa frá átakinu Allir vinna og það á einu bretti, í einu skrefi. Ég tel það vera eitt af betri dæmum um fjölmargar velheppnaðar aðgerðir sem farið var í á síðasta kjörtímabili til að takast á við ástandið þá. Það held ég að sé alveg óumdeilt orðið að aðilar vinnumarkaðarins hafa tekið það í fangið og það nægir að ræða það við iðnaðarmenn að þetta gerði sitt gagn og rúmlega það, bæði í þeim skilningi að auka umsvif í viðhaldi og endurbótum á húsnæði og koma starfseminni upp á yfirborðið.

Ég held að það sé enn þörf fyrir átakið, t.d. á ákveðnum svæðum þar sem byggingariðnaðurinn er nú ekki kominn á mikinn snúning. Í öðru lagi held ég að það sé óskynsamleg aðferð að fara svona bratt út úr þessu. Væri hér verið að leggja til að endurgreiðslurnar færu t.d. í 80% næstu tvö ár þá væri það strax betra að mínu mati. Það mun verka sem dálítið mikið bakslag inn á þennan geira að fara úr 100% niður í 60% bara í einu skrefi með svo stuttum aðdraganda. Ég mæli nú með því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra verði opinn fyrir því að það verði skoðað að fara a.m.k. í einhverja meiri aðlögun þannig að við bökkum þá í skrefum aftur í það fyrirkomulag sem upphaflega var, sem væri strax betra að mínu mati.

Aðeins betur um lægra þrepið og matvælin. Ég held að það vanti inn í þá umræðu enn eina breytuna sem ekki snýr að tekjujöfnunarhlutverki þess og það er spurningin um það sem væntanlega er ein af meginástæðum þess að flestar þjóðir í kringum okkur eru með tvö, þrjú og fjögur þrep í virðisaukaskatti. Það er almennt þrep, margar þeirra eru með tvö lægri þrep og síðan núll þannig að í reynd eru fjögur þrep í skattinum, t.d. í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Það er ekki bara hugsunin að með því sé verið að jafna aðstöðumun fólks heldur er verið að hlúa að tiltekinni starfsemi, samanber lágan skatt af menningu, samanber lágan skatt á innlenda matvælaframleiðslu sem auðveldar fólki að neyta ferskra, óunninna, hollra vara af því að þær eru ódýrari í verði. Það verður að hafa í huga að þetta snýst um það. Við erum ekki bara að bera saman tekjuhópa, hvað þeir eyða háum hluta launa sinna eða ráðstöfunartekna í matvæli, heldur hvað matarkarfan vegur þungt í heildarútgjöldum heimilanna. Það er lýðheilsumarkmið. Það er félagslega mikilvægt (Forseti hringir.) að hafa þá prósentu sem lægsta. Það gerum við með lágu þrepi á mat. Það er alveg á hreinu.