144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir um margt málefnalegar ábendingar. Ég verð að segja að það er frískandi að hlusta á hv. þingmann færa gild rök fyrir því að halda sköttum lágum. Í þessu tilviki átta ég mig ekki að fullu á því hvort hv. þingmaður er í raun og veru talsmaður þess að halda neðra þrepinu í 7% eða hvort hann sér einhvern flöt á því að hækka það. Í það minnsta heyrist mér að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að þörf sé á að skoða skilvirknina í virðisaukaskattsþrepinu.

Það er rétt að langflestar þjóðir eru með tvö virðisaukaskattsþrep eða fleiri. Það verðum við líka þrátt fyrir þessa breytingu. Það er ekki verið að afnema það. Við verðum með 12 prósentustiga lægri virðisaukaskatt á allt það sem fellur í neðra þrepið, nái þessar breytingar fram að ganga. Þar eru einmitt þær helstu nauðsynjar sem hv. þingmaður hefur hér rakið.

Varðandi lægstu tekjuhópana verð ég enn og aftur að benda á það að vegna þess að lægri tekjuhópar nota almennt allt það svigrúm sem þeir hafa til neyslu með einum eða öðrum hætti kemur þetta þannig út í útreikningum að í flestu tilliti koma allar breytingar ýmist betur eða verr út fyrir þá hópa. Við skulum ekki bara einblína á það sem kemur verr út fyrir þá.

Þegar við horfum á það hlutfall af heildarútgjöldum sem fer til matarinnkaupa, eins og hv. þingmaður lagði til, eru 85% eftir. Þar kemur margt til góða sem mælist í (Forseti hringir.) vísitölunni. Við ættum í sjálfu sér ekki að þurfa að rífast mikið um þessa hluti vegna þess að við höfum vísitölumælingar til að kalla fram þessi áhrif. (Forseti hringir.) Ég tel að þau séu jákvæð.