144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kaupi ekki þessar röksemdir hæstv. fjármálaráðherra, ég tel að það liggi önnur gögn fyrir sem sýni að svona einhlít er myndin ekki, ég hef ekkert séð sem hrekur það að lægsta tíundin eyði hærra hlutfalli í matarkaup. Það eru um 20% af ráðstöfunartekjum en ekki 15%, eins og meðaltalið er. En jafnvel þótt við keyptum röksemdir ráðherra stæðu eftir svo mörg rök sem við þyrftum að velta fyrir okkur. Þar á meðal er þessi spurning: Viljum við ekki að þetta hlutfall sé sem lægst þannig að það sé sem mest eftir í allt hitt? Og menn geta sjálfsagt sagt að í þeim tilvikum sem fólk veltir fyrir sér hverri krónu hljóti það að teljast nauðsynjar á heimilunum. Ef fólk er í þeirri stöðu að velta fyrir sér hverri krónu áður en það ákveður endanlega útgjöldin, þá geri ég ráð fyrir að það sé þannig.

En að því marki sem við höfum alltaf áhrif á þetta, hvort sem er með ákvörðunum um skattlagningu og fleiri hlutum, gætum við ekki bara orðið sammála um það að við viljum að þessi liður í meðaltalinu og hjá venjulegum fjölskyldum sé sem lægstur? Það þjónar mörgum mjög góðum öðrum markmiðum en tekjujöfnunarmarkmiðunum, jafnvel þó við deilum um þau, og ég taldi mig hafa farið hérna ágætlega yfir það áðan. Ég held að það mætti færa fram sjálfbærnirök fyrir því og umhverfisrök. Ég nefni landsbyggðina í þessu sambandi þar sem matvælaverðið er hátt, ofan í hátt orkuverð. Flutningskostnaðurinn ofan á ferskar vörur er mjög hár, eins og við vitum, út á afskekktustu svæði landsins. Ætlum við nú að hækka það með því að hækka vaskinn sem leggst á þá vöru á endanum þegar búið er að reikna inn flutningskostnaðinn og allt þetta?

Það er að mörgu að hyggja í þessu. Við þurfum að breikka þessa umræðu og skoða þetta mjög rækilega í nefnd sem ég vona að við gerum. Ég held að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gerði bara rétt í því að treysta efnahags- og viðskiptanefnd til þess að vinna (Forseti hringir.) vel úr þessu máli og gæfi henni fullt sjálfdæmi í því að afgreiða málið frá sér eins og hún vill.