144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þingmann hvort honum fyndist ekkert unnið með því að lækka virðisaukaskatt á föt. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður vildi ekki svara því, a.m.k. ekki í fyrra andsvari.

Hér er talað um neyslustýringu en þetta er bara neyslustýring á suma. Ég benti hv. þingmanni á að margir geta keypt þetta annars staðar og gera það og borga þá ekki þessi gjöld. Þeir tekjulægstu verða að borga þetta. Þetta snýst ekki um það að við hér ákveðum fyrir fólkið í landinu að það skuli kaupa þessa vöru en ekki hina vegna þess að það er gott fyrir það, vegna þess að þeir sem eru með meiri tekjur kaupa þetta annars staðar, ekki bara í útlöndum, heldur líka í ríkisversluninni Fríhöfninni. Það er svolítið holur hljómur í þessu.

Ég vona svo sannarlega að menn nái samstöðu um lýðheilsuna og forvarnastefnuna. Það var því miður ekki í síðustu ríkisstjórn. Sú vinna var unnin af ríkisstjórn sem ég sat í og var tilbúin þegar sú ríkisstjórn sem hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. ráðherra, var í en hún gerði ekkert með þá miklu vinnu sem var unnin af fagfólki í því efni. Vonandi er það að lagast og við náum saman um góða forvarnastefnu.

Það sem ég er að vekja athygli á er að það er auðvelt að tala eins og að fólk hér á landi og tekjulágir þurfi bara á mat að halda, það séu engar aðrar nauðsynjavörur. Það eru fleiri nauðsynjavörur. Og það eru tvær þjóðir í þessu landi. Við sem erum hér inni förum stundum til útlanda og getum keypt í ríkisversluninni í Leifsstöðinni á allt öðru verði en fólkið, sérstaklega það tekjulága, sem verður að versla hér.

Ég spyr hv. þingmann: Svíður hv. þingmanni það ekkert, finnst honum það ekki ósanngjarnt? Finnst honum ekki ósanngjarnt að þeir tekjulágu eigi ekki annarra kosta völ en að borga (Forseti hringir.) há gjöld og háa skatta fyrir það sem ég held að flestir telji nauðsynjavöru þó að um fleira sé að ræða en bara mat?