144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mér þykir á ákveðinn hátt leitt að hæstv. ráðherra skuli ekki vera hér. Hann fylgist vonandi með ræðu minni einhvers staðar annars staðar eða horfir á hana í kvöld á netinu, (Gripið fram í: Í flatskjánum sínum.) í flatskjánum sínum (Gripið fram í: … túbusjónvarpi.) eða túbusjónvarpi, hvað veit ég?

Það er eitt og annað sem mig langar til að — já, hér er ráðherrann kominn. Við vorum að leiða að því líkum að þú værir heima hjá þér að horfa á þetta í túbusjónvarpinu.

En nú ætla ég að hefja mál mitt. Það er eitt og annað sem ég hef út á þetta frumvarp að setja. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er einfaldlega spurningin: Hvert er markmiðið?

Það er sagt að markmiðið sé einföldun, og ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, síðasta ræðumanni, að það er orðin svolítil klisja í umræðu um skattamál að nota einföldun sem rökstuðning fyrir skattkerfisbreytingum. Ég skil einföldun þannig að hún eigi að koma rekstraraðilum vel, t.d. rekstraraðilum í ferðaþjónustu sem glíma við það að uppgjör eru orðin mjög flókin í rekstrinum vegna þess að það er óljóst hvað er í efra þrepi og engu þrepi eða í hærra þrepi og síðan geta komið bakreikningar þegar árið er gert upp. Þetta er dæmi um flókið umhverfi sem mér finnst þess virði að laga.

Það er sagt að hér sé verið að einfalda en svo kemur á daginn að það er í raun bara verið að fella brott eina undanþágu. Fólksflutningar í afþreyingarskyni hafa hingað til ekki borið neinn virðisaukaskatt en munu gera það núna. Þetta er eina einföldunin. Þegar ég spurði hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir fjárlagafrumvarpinu hvort einhverjar frekari einfaldanir stæðu til var svarið nei. Mér fannst það athyglisvert. Það stendur sem sagt ekki til að setja til dæmis alla ferðaþjónustuna í hærra þrepið sem ég held að væri skynsamlegt. Ferðaþjónustan er farin að skila miklum tekjum og margt sem mælir með því.

Á að skoða happdrætti og getraunir, vátryggingastarfsemi og þar fram eftir götunum? Stendur eitthvað til í þessu sem réttlætir það að hægt sé að tala um umfangsmikla einföldun?

Það á ekki að fækka skattþrepunum. Mér finnst umræðan um eitt þrep í virðisaukaskatti mjög áhugaverð. Ég er alveg opinn fyrir umræðu um það allt saman, og við í Bjartri framtíð. Sjónarmið OECD og AGS, þessara skammstafana, eru mjög athyglisverð. Sum ríki hafa eitt þrep í virðisaukaskatti, eins og Danmörk, Litháen, Slóvakía, Eistland og Búlgaría, á bilinu 20–25%. Ég mundi alveg vilja vita meira um reynslu þessara ríkja.

Það er eitt lykilatriði í málflutningi AGS hvað þessi mál varðar. Í ráðleggingum AGS til Íslendinga er talað um að virðisaukaskattskerfið sé ekki hentug umgjörð til tekjujöfnunar. Ég get tekið undir það, það er ekki hentug umgjörð vegna þess að of margir sem í raun þurfa ekki niðurgreiðslu fá hana. Þetta á við um mat. Allir kaupa mat og vissulega er dýrt að niðurgreiða mat fyrir fátækasta hluta þjóðarinnar með því að niðurgreiða mat fyrir alla. Lykilatriðið í þessu er að AGS segir að til séu betri leiðir. Það verða að koma mótvægisaðgerðir til að mæta þó þeim sem verða fyrir skelli af hærra matarverði þegar matarskattur er hækkaður. Þetta vantar í frumvarp hæstv. ráðherra, það vantar skýra yfirsýn, einhverja heildarmynd, einhverjar boðaðar aðgerðir sem geta kallast með réttu mótvægisaðgerðir gagnvart svo skarpri hækkun á matarskatti. Þetta vantar.

Mér finnst þess virði að fara í yfirgripsmikla vinnu með aðilum vinnumarkaðarins og þverpólitíska vinnu allra flokka á þingi, vegna þess að það þarf að ríkja sátt um skattkerfið, og skoða hvort eitt þrep í virðisaukaskatti henti til dæmis Íslendingum með rausnarlegum mótvægisaðgerðum til þeirra sem þurfa sannarlega stuðning í samfélaginu, hnitmiðaðri mótvægisaðgerðum, hnitmiðaðri leiðum til tekjujöfnunar, t.d. með því að hækka persónuafslátt eftir einhverjum öðrum leiðum í skattkerfinu eða í gegnum bótakerfið. Það væri þess virði að fara í slíka vinnu.

Það vekur eftirtekt mína að í greinargerð með frumvarpinu segir að slík vinna sé rétt hafin innan fjármálaráðuneytisins. Stýrihópur þriggja manna hefur verið skipaður til að skoða heildarmyndina í virðisaukaskattskerfinu. Sá stýrihópur er rétt byrjaður að starfa og starfshópar sem eiga að endurskoða þetta með dýpri hætti hafa enn ekki verið skipaðir. Mér finnst þetta lýsandi fyrir hvað þetta er ómarkvisst, það er engin hugmynd um hver endapunkturinn er í þessu öllu saman. Mér finnst þetta mikilvægt allt saman. Fyrst þetta er svona stutt á veg komið, þetta mikilvæga tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs, þætti mér til dæmis skynsamlegt — nú er ég bara að hugsa upphátt upp að því marki sem það er hægt hér á þessum stað, í þessum ræðustól, ég er náttúrlega búinn að hugsa þetta aðeins — að fresta því að afnema auðlegðarskattinn að fullu. Er ekki hægt að gera það í einhverjum þrepum, lækka vissulega efra þrepið á virðisaukaskatti, afnema vörugjöldin en fresta líka þessari hækkun á neðra þrepinu, á matarskattinum? Það kemur út á eitt, ef við frestum því að afnema auðlegðarskattinn að hluta og frestum því að hækka matarskattinn kemur það eins út fyrir ríkissjóð, þá verður ríkissjóður ekki fyrir skaða. Við setjum síðan þessi mál í það þverpólitíska og yfirgripsmikla samráðsferli sem þarf að fara fram áður en við breytum virðisaukaskattskerfinu til raunverulegrar einföldunar eða í átt til meiri sanngirni. Við gætum hannað raunverulegar mótvægisaðgerðir sem mæta þeim sem sannarlega verða fyrir skelli af hærra matvælaverði, hærra verði á rafmagni og hita. Þetta væri ein leið og ég held að hún væri þess virði að skoða hana. Það hefur verið mikill hringlandaháttur með virðisaukaskattskerfið á undanförnum árum.

Það var farið yfir það ágætlega í ræðu áðan hvernig var farið í þessa óígrunduðu lækkun 2007 og núna erum við í rauninni að fara skref aftur í þá átt sem það var fyrir þann tíma. Það lýsir ónauðsynlegum hringlandahætti og hefði verið betra að fara í víðtækt samráð árið 2007. Við eigum að læra af þessu. Gagnvart ferðaþjónustunni sjáum við alveg ótrúlegan hringlandahátt. Hér var lagt til að gistingin færi upp í 25,5%, bakkað með það og ákveðið að fara niður í 14%, að því er ég taldi í sátt allra aðila. Síðan kom ný ríkisstjórn og hún ákvað að gistingin ætti að vera í 7% og sú sama ríkisstjórn leggur núna til ári síðar að gistingin sé í 12%. Og svo 14% á næsta ári, eða hvað? Hér gætir ekki þess pólitíska stöðugleika sem ríkisstjórnin státar sig stundum af að hún hafi innleitt.

Ég held að við ættum að taka skref til baka núna, bakka með þessa hækkun á neðra þrepinu, bíða með hana og spá í heildarmyndina af þessu. Ég held að það sé alveg einnar messu virði, og jafnvel fleiri, að fara í endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu. Ég fagna því að það sé hafið í fjármálaráðuneytinu en því er ekki nándar nærri lokið. Þeirri vinnu þarf að ljúka með skýru markmiði og í þverpólitískri sátt upp að því marki sem það er hægt.

Það er svolítið rætt um matvælaverð í þessu samhengi. Það er athyglisverð umræða um mun á nauðsynjavörum og öðrum vörum. Ég get alveg tekið undir það að ef við tölum út frá meðaltalsþörfum venjulegs launafólks á Íslandi vill fólk kaupa sér flatskjá, það vill kaupa sér ísskáp og það vill kaupa sér þvottavél, varahluti í bíla og allt það. Við viljum að þjóðfélagið sé þannig að fólk hafi efni á þessu og ég fagna afnámi vörugjalda. Þetta kemur öllu fólki ágætlega en við erum ekki að tala um þennan hóp þegar við segjum: Matur er nauðsynjavara.

Nú vil ég minna á skýrslu um fátækt á Íslandi sem kom út fyrir ári. Þar var sýnt fram á að 8,5% þjóðarinnar, 28 þús. manns, þurfa að lifa á tekjum undir 160 þús. kr. Það er þessi hópur sem við erum að tala um. Þessi hópur á kannski þurrkara en hann er ekki að fara að endurnýja hann með góðu móti. Hann endurnýjar heldur ekki ísskápinn sinn með góðu móti, það þarf mun meira til að hann geti komist upp í þetta meðaltal sem er í endurnýjun heimilistækja með reglulegu millibili. Þessi hópur þarf hins vegar mat sem og rafmagn og hita. Tölur frá umboðsmanni skuldara sem okkur voru kynntar fyrir ári sýndu að nokkur hundruð manns á Íslandi hafa ekki einu sinni efni á húsnæði. Röksemdin fyrir því að hafa matarskattinn lágan er einfaldlega sú að þessi hópur þarf í öllu falli mat. Sá sem lendir í því að þurfa að lifa á undir 160 þús. kr. á mánuði mun í öllu falli þurfa að kaupa sér mat. Það er röksemdin fyrir því að þetta er nauðsynjavara. Ég mundi segja að við ættum ekki að hækka skattinn á hana nema við séum með það alveg á hreinu hvaða mótvægisaðgerðir eigi að koma þessum hóp til góða í staðinn. Það er ekki ljóst.

Það á að hækka barnabætur. Barnabætur eru að mínu viti ekki hin fullkomna leið til að ná í þennan hóp. Okkur í Bjartri framtíð hefur orðið tíðrætt um umgengnisforeldra. Það er sá hópur barnafólks sem nýtur ekki barnabóta, mjög ört stækkandi hópur fólks á Íslandi, fjölskyldur sem hafa ekki lögheimili barnanna en ala þau sannarlega upp jafnvel helming ársins. Þau njóta ekki barnabóta, þau taka bara þennan skell. Svo er einfaldlega til fátækt fólk á Íslandi án barna, einstæðingar, aldraðir. Ég held að námsmenn þurfi líka lágt matvælaverð.

Það er mjög mikilvægt að vera meðvitaður um að á Íslandi er matvælaverð hátt af mörgum öðrum orsökum. Því veldur fjarlægðin til landsins, flutningskostnaður er mikill. Við erum með tiltölulega háa tolla á mörgum matvælum og það á ekkert að gera í því. Tollarnir hafa meðal annars leitt af sér fákeppni, litla samkeppni á matvörumarkaði. Það er líka lítil samkeppni í smásölunni. Það er lág framleiðni í matvöruverslun á Íslandi, smæðin torveldar okkur á margan hátt.

Það eru mörg tilfallandi íslensk rök byggð á íslenskum aðstæðum sem mæla með því að hafa skatt á matvæli lágan.

Úr því að við erum að tala um mótvægisaðgerðir er ekki úr vegi að nefna að hér á að hækka virðisaukaskatt á bækur. Það er beinlínis ekki talað um neinar mótvægisaðgerðir í því. Ég sé ekki neitt um það hvernig á þá að koma til móts við það högg sem bókaútgáfa fær á sig. Það gerir það að verkum að manni reynist mjög erfitt, eiginlega nánast algjörlega ómögulegt, að styðja þessa skattahækkun. Af hverju leggja flestar þjóðir lágan virðisaukaskatt á bækur? Það er til þess að efla læsi, til þess að námsbækur kosti minna.

Við viljum vernda íslenska tungu. Þetta eru ekki bara einhver hátíðarmarkmið, þetta eru raunveruleg markmið og við höfum reynt að ná þeim með því að hafa virðisaukaskatt lágan á bækur. Ég er alveg opinn fyrir því að hlusta á rök þess efnis að það sé kannski ekki skilvirkasta leiðin, en komið þá með einhverja aðra leið. Hver er hún? Hér skilar ríkisstjórnin algjörlega auðu.

Svo vil ég að síðustu benda á að lækkun á vöruverði í kjölfar lækkana á efra þrepinu og vörugjöldum er sýnd veiði en ekki gefin. Það sýna úttektir á lækkununum 2007, (Forseti hringir.) þær breytingar skiluðu sér ekki til neytenda og það verður að huga vel að því.