144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil beina sjónum hv. þingmanns að öllu því sem er utan matarkörfunnar og þetta mál hefur áhrif á. Það eru 85% af neyslunni, það eru tekjulágu hóparnir sem njóta góðs af þeim breytingum sem eru að verða á efra þrepinu, t.d. vegna lyfjakaupa og fatakaupa. Skór eru í efra þrepinu. Eldsneyti er í efra þrepinu og svo margt, margt annað sem í daglegu tali telst til nauðsynjavöru, enda er það varla svo að það séu einungis 15% af útgjöldum heimilanna sem gangi til kaupa á nauðsynjum. Væntanlega er eitthvert hlutfall af restinni líka nauðsynjavara og nauðsynleg útgjöld. Auðvitað vitum við að húsnæðiskostnaður er þar mjög stór liður.

Þessar breytingar hafa jákvæð áhrif á byggingarkostnað og þar með á húsnæðisverð í landinu. Ég kom t.d. í eina verslun í gær sem selur hreinlætistæki og ýmsan þess háttar varning, þurfti að kaupa nýja síu í krana í eldhúsvaskinum. Ég spurði um vörugjöldin og svarið var að nær allt sem væri í búðinni bæri vörugjöld. Væntanlega margir vöruflokkar af þeim 800 sem eru að lækka. Menn eiga að taka þetta með í myndina þegar rætt er um heildaráhrif af þessum breytingum. Það finnst mér vera algjört grundvallaratriði til þess að fá sanngjarna mynd af stöðunni.

Síðan segi ég bara varðandi það hvar við erum stödd í endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu: Við erum alveg fullfær um að stíga þetta skref núna. Hærra lægra þrep, lægra efra þrep. Það er ekkert Norðurlandanna með lægra efra þrep. Það er ekkert Norðurlandanna með mat í lægra neðra þrepi.

En það er rétt sem hv. þingmaður segir, við erum með háar tekjur af virðisaukaskattinum, hærri en margar aðrar Evrópuþjóðir. Þetta er það tekjuöflunarkerfi sem (Forseti hringir.) er hvað sterkast í samanburði við aðrar þjóðir hjá okkur, þetta er sterkasta einstaka tekjuöflunarkerfi okkar. Það (Forseti hringir.) gefur svigrúm til þess að vera með lægri beina skatta.