144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna. Hún veitir mér tækifæri til að ítreka það sem ég hef sagt nokkrum sinnum að við styðjum afnám vörugjaldanna. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því að það getur haft mjög góð áhrif á heimilisbókhaldið hjá meginþorra fólks. Það sem ég var að reyna að beina sjónum þingheims að er að varðandi matinn erum við eiginlega ekki að tala um meginþorra fólks, við erum að tala um fátækasta hluta þjóðarinnar, þennan hóp, þessi 28 þúsund manns, samkvæmt ársgamalli skýrslu, sem þurfa að lifa á undir 160 þús. kr. á mánuði með öllum útgjöldum. Það er ekki fólk sem er endilega að kaupa sér mikið nýjan þurrkara. Það þarf miklu meira til, það þarf einfaldlega hærri laun, en þetta er fólk sem þarf mat. Þess vegna skilgreinum við mat sem nauðsynjar. Við viljum ekki hungur á Íslandi.

Svo er það líka innifalið þegar hv. þingmaður spyr hvort þær 2.700 milljónir sem ríkið verður af endi ekki einhvers staðar. Jú, það er áleitin spurning og góð spurning hvar þessir 2,7 milljarðar lenda. Miðað við reynslu af fyrri skattalækkunum á þessum vettvangi er mjög líklegt að þetta lendi í smásölunni. Í greinargerð frumvarpsins er gert ráð fyrir því að lækkanir á efra þrepi og lækkanir á vörugjöldum skili sér að fullu út í verðlagið, „skili sér að fullu“ segir í greinargerðinni. Það þarf meiri háttar átak, meiri háttar eftirfylgni, til að þessar lækkanir skili sér að fullu út í verðlag (Forseti hringir.) þó að ekki sé talað um nema bara til skamms tíma, hvað þá til langs tíma.