144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um markmið. Markmið okkar sameiginlegt hlýtur að vera að tryggja sem lægst verð til neytenda. Ég samgleðst hv. þingmanni með það að verið er að afnema vörugjöld. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og barist fyrir því eins og hann. Ég hef gert það í verki og sýnt það í dáð, til dæmis með því að í tíð síðustu ríkisstjórnar gerði ég fríverslunarsamning við Kína sem þýðir að verið er að aflétta gjöldum, miðað við innflutning sem þá var, af íslenskum neytendum sem svarar til 3 milljarða á ári. Það skiptir máli.

Í þessu tilviki hins vegar er þetta líka spurning um prinsipp. Ég hef lagt það algjörlega skýrt fyrir að mitt prinsipp er að vernda þá tekjulægstu. Það er alveg sama hvað hv. þingmaður talar mikið um flatskjái, frystiskápa, ísskápa og ryksugur, það er einfaldlega staðreynd, eins og hefur komið fram í umræðunni, að þeir sem eru tekjulægstir nýta hæst hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum til kaupa á matvöru. Þess vegna kemur þetta verst við þá.

Það er ekki rétt sem hv. þingmaður sagði áðan að menn hefðu verið að vísa til ASÍ um að lækkanir skiluðu sér ekki til neytenda. Það sem menn hafa vísað í hjá ASÍ er einfaldlega könnun sem sýnir að þeir tekjulægstu nota tvöfalt hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum til að kaupa mat og vörur sem eru í lægra þrepinu en þeir tekjuhæstu. Það er fólkið sem ég er að hugsa um. Það eru þessi 22 þús. manns sem bent var á að lifa við eða undir fátæktarmörkum á Íslandi, þessi 8,3% sem komu fram við úttektina á bak við fátæktarskýrsluna sem kom út í fyrra, þetta er fólk sem lifir á í kringum 170 þús. kr. á mánuði. Er það að verja miklum peningum til þess að (Forseti hringir.) kaupa sér flatskjái, frystiskápa? Það rétt getur dregið fram lífið, (Forseti hringir.) hv. þingmaður.