144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er slyngur og orðfimur og það er merkilegt að sjá hvernig hann forðast í reynd kjarna þessarar umræðu sem er millum okkar tveggja. Kjarni málsins í andsvari mínu áðan var að benda á að ASÍ hefur gert könnun á því hvernig mismunandi tekjuhópar verja ráðstöfunarfé sínu. Það kemur í ljós að þeir sem eru tekjulægstir verja tvöfalt hærra hlutfalli en hinir tekjuhæstu til að kaupa sér matvörur. Þetta er fólkið sem er borið fyrir borð í frumvarpinu. Ég er sammála því að það er gott að geta lækkað gjöld og lækkað skatta. En það má ekki verða á þann hátt að verið sé að hækka nauðsynjavörur fyrir þann hóp í samfélaginu sem ber minnst úr býtum. Það er einfaldlega þannig að sá sem hefur úr að spila 165–175 þús. kr. á mánuði getur ekki byggt sér raðhús upp á 42 millj. kr. eins og var hið sérkennilega dæmi sem formaður Sjálfstæðisflokksins tók hér í dag. Þessi hópur getur varla endurnýjað ísskápinn sinn eða þvottavélina og hann getur ekki keypt sér flatskjái.

Fólk sem er með þessar tekjur er ekki að endurnýja hluti af þessum toga. Það berst í bökkum og reynir að lifa frá degi til dags. Kannanir sýna líka að 60% af þessu fólki nær ekki endum saman. Þetta er fólkið sem ég slæst fyrir.

Um leið og ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður segir að sé lofsvert við frumvarpið breytir það ekki hinu að hluti af þessum tekjulægstu hópum fær ekki til baka það sem verið er að leggja á þá með öðrum hætti. Það er mín aðfinnsla. Um það ættum við að reyna að vera sammála að (Forseti hringir.) hjálpa því fólki. Það er meðal annars minn tilgangur í pólitík. Ég hef talið að það sé líka tilgangur (Forseti hringir.) hv. þingmanns sem hefur gott hjartalag.