144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég mun koma að því í ræðu minni hér á eftir varðandi vörugjöldin og annað slíkt í frumvarpinu. En hér hefur það komið alveg skýrt fram, og það ber að þakka fyrir þá hreinskilni sem hv. þingmaður sýnir, að töluverður munur er á því hvort menn eru stjórnarandstæðingar eða stjórnarsinnar eins og hv. þingmaður er núna. Það er mikill munur á þessum málflutningi og ekki er nema eitt og hálft ár á milli þessara breytinga. En hér viðurkennir hv. þingmaður að fullbratt sé farið með því að setja þetta á 1. mars nk., hann afneitar þessari hugmynd í raun og veru og lýsir sig andvígan henni.

Hitt atriðið sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í varðar málaflokk sem við báðir höfum mikinn áhuga á, en það er íþróttaiðkun landsmanna og þá alveg sérstaklega barna og ungmenna. Í fyrsta skipti verður lagður virðisaukaskattur á íþróttafélög sem ferðast til og frá sínum stað til keppni. Með öðrum orðum, eins og ég sagði áðan í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra, þarf íþróttafélag sem fer með hóp iðkenda milli landshluta að greiða allt að 1 milljón króna í þá rútuferð. Sú ferð hækkar um 120 þús. kr. við þessa breytingu. Hún hækkar þannig, ef það væru 40 í rútunni, um 3 þús. kr. á hvern einstakling í hverri ferð. Og fari aðili sex sinnum, sem alveg getur gerst, þá eru það 18 þús. kr. á ári.

Hvort sem þetta er nú nauðsynjaþáttur eða hvað, við erum sammála um að nauðsynlegt sé að unglingar stundi heilbrigt íþróttastarf, en þetta kemur inn í útgjöld heimilanna og vegur á móti. Þetta er hvergi mælt inn í þær vísitölur eða þá útreikninga sem hér eru sýndir.