144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað eingöngu til að taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem vekur athygli á því að enginn framsóknarmaður er á mælendaskrá þessa máls. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur að mestu leyti setið hér í dag, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og hlustað á þær ræður sem haldnar hafa verið sem ég tel ákaflega mikilvægt. Ég sakna þess í þingstörfum hvað nefndarmenn viðkomandi nefndar eru lítið á staðnum að hlusta á það sem kemur fram í þessu máli.

Það hefur einnig komið fram að hv. þm. Vigdís Hauksdóttur, formaður fjárlaganefndar, ætlaði ekki að tjá sig um fjárlagafrumvarpið — sem hún hefur lýst andstöðu við vegna matarskattsins, svo og margir aðrir framsóknarmenn, þar á meðal forsætisráðherra — heldur ætlaði hún að ræða það undir þessum lið. Þess vegna er mjög mikilvægt að kannað verði hvort viðkomandi þingmaður ætlar (Forseti hringir.) ekki að setja sig á mælendaskrá til að eiga orðastað og útskýra fyrir okkur sjónarmið sín hvað þetta varðar.