144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það hefur gjarnan verið gagnrýnt að við hér í þingsölum séum ekki mjög skilvirk og eyðum tímanum frekar en að nýta hann. Ég hef einmitt verið að hugsa það hér í dag að nú ræðum við stjórnarfrumvarp sem við vitum að margir stjórnarþingmenn eru á móti. Við vitum hins vegar ekki hvort það er virkilega þingmeirihluti fyrir því þannig að það er alveg ljóst að frumvarpið á eftir að breytast mjög mikið. Nú er það auðvitað bæði sjálfsagt og eðlilegt að stjórnarfrumvörp breytist í meðförum Alþingis, en að þau breytist að markmiðinu, að því sem nákvæmlega er verið að gera, og ekki bara í einhverjum smáatriðum heldur í útfærslum, er svolítið skrýtið. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort við eigum ekki að nýta tímann betur og tala um eitthvað sem við vitum að er líklegt að komi (Forseti hringir.) til framkvæmda.