144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú eru níu manns á mælendaskrá í þessari ágætu umræðu og enginn þeirra er framsóknarmaður. Það væri kannski ekki mikil frétt nema vegna þess að það gerðist á dögunum að ekki ómerkilegri þingmaður en hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sem er líka aðstoðarmaður forsætisráðherra, gerði grein fyrir því í fjölmiðlum að Framsóknarflokkurinn í heild hefði verið með fyrirvara á málinu. Framsóknarflokkurinn í heild var með fyrirvara á málinu.

Og nú bíða menn eftir því að heyra í hverju sá fyrirvari hafi falist. Hverjir eru þeir efnisþættir sem Framsóknarflokkurinn setti fyrirvara við? Að öðrum kosti er ekki hægt að halda umræðunni áfram ef við vitum ekki nákvæmlega hver þessi álitamál eru milli stjórnarflokkanna. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að við köllum eftir því að annar stjórnarflokkurinn komi hér og eigi orðastað við þingmenn (Forseti hringir.) um stöðu málsins sem er mjög sérkennileg, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.