144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og málefnalega. Hann var ekki alveg frábitinn því að einfalda kerfið og færði fyrir því rök sem eru gamalkunnug.

Neyslukönnun Hagstofunnar, sem birt var fyrir nokkrum vikum, sýnir að þessir fjórir tekjuhópar, þeir sem hafa lægstu tekjurnar o.s.frv., eyða af ráðstöfunarfé sínu 15% í mat, nokkurn veginn allir jafnt, plús/mínus 0,5% hámark. Allir þessir hópar eyða 15% í mat af ráðstöfunartekjum sínum. Það þýðir að þeir eyða 85% í eitthvað annað, allir þessir hópar. Ég reikna með því að þar inn í fari góður hluti í efra þrepið og lækkar og alveg sérstaklega í vörugjöld.

Ég hef ekki komið inn á það heimili enn þá, en það væri gott ef hv. þingmaður upplýsti okkur um það hvort hann hefur komið inn á slíkt heimili, þar sem ekki er ísskápur og hvort hann hefur komið inn á heimili þar sem ekki er þvottavél eða eldavél eða eitthvað slíkt. Allir hópar þjóðfélagsins, ríkir sem fátækir, þurfa að borga þetta hærra þrep og vörugjöld. Í fréttum í dag kom fram að eitt innflutningsfyrirtæki og smásala ætlar að lækka verð á þessum vörum nú þegar um 17–20%, það er töluverð lækkun, vegna þess hve vörugjöldin vega þungt. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að þetta komi fólkinu með lægstu tekjurnar til góða.

Landsbyggðin þarf líka þessi dýru tæki og flutningskostnaðurinn leggst ofan á verðmætin. (Gripið fram í.) Já, gjaldskráin er oft þannig. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það komi ekki líka til góða á landsbyggðinni, sem sagt lækkun á vörugjöldum.