144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér kemur hv. þingmaður með ákaflega athyglisverðan punkt um þessa umræddu neyslukönnun sem ég ítreka að ég hef ekki lesið, því miður, en geri það fljótlega. Hann tekur þar inn í dæmið námsmenn sem rugla það vafalaust vegna þess að eins og hv. þingmaður talar um fá þeir lánað fyrir framfærslu sinni meðan þeir eru í námi og borga svo til baka eftir að námi lýkur.

Það eru einmitt þessir þættir allir í hagskýrslugerð okkar og fleiru sem ég treysti ekki almennilega. Þó að ég ætli ekki að fara að ræða um veiðigjöld hér, álagningarstofn veiðigjalds eru tölur frá Hagstofunni úr tveggja ára gömlum gögnum. Þetta er úrelt kerfi til að vinna eftir. Þannig má segja að hv. þingmaður hafi bent á atriði sem rökstyður frekar fyrirvara mína um að við getum ekki treyst öllum þessum gögnum eða því hvernig menn reikna þetta út.

Rosalega mikið hefur verið rætt, í þessari umræðu um lækkun vörugjalda og hækkun virðisaukaskattsþrepsins, um ísskápa og þvottavélar. Nú er það svo að allir þurfa að nota þetta, það er alveg hárrétt. En ég er nokkuð viss um að í mjög mörgum tilfellum duga þessi tæki í ein 15 ár. Án þess að ég ætli að fara að lýsa því yfir hvernig ég rek mitt heimili veit ég alveg hve gamall ísskápurinn minn er, ég veit hve frystiskápurinn og þvottavélin eru gömul; og ég er ekki að kaupa þetta á hverju ári og ekki annað hvert ár.

Virðulegi forseti. Það má eiginlega segja að þetta endurspegli það sem einn ágætur vinur minn setti á facebook í umræðu um þessa matvöruverðshækkun sem fylgir því að neðra þrepið er hækkað um 71%. Hann sagði einfaldlega: Til hvers er verið að lækka vörugjöld og virðisaukaskatt á ísskápum ef ég hef ekki einu sinni efni á að kaupa mat til að geyma í ísskápnum? Þetta er dálítið athyglisvert sjónarmið hjá aðila sem hefur kannski ekkert allt of mikið milli handanna.