144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er margt ágætt sem hefur komið fram í þessari umræðu hér í dag um virðisaukaskattinn. Það er auðvitað alveg rétt að virðisaukaskattsprósenta er ekkert náttúrulögmál. Það eru ekki mörg ár síðan matarskatturinn var lækkaður úr 14% niður í 7%. Það var raunar aðgerð sem var gagnrýnd af einhverjum á þeim tíma fyrir að hún kæmi á röngum tíma, hún kæmi á miklum þenslutíma í samfélaginu, en þó þykist ég muna að fyrrverandi hv. þingmaður og hæstv. ráðherra, Guðni Ágústsson, hafi fagnað þessari lækkun mjög og sagt að nú mundu allir kokkar í eldhúsum landsins gleðjast. Ég eins og aðrir lýsi því eftir sjónarmiðum hv. þingmanna Framsóknarflokksins við þá hækkun sem hér er boðuð á nýjan leik á matarskattinum.

Það er líka vel þess virði að ræða það hvort við teljum þá aðgerð að nýta virðisaukaskattskerfið til tekjujöfnunar, eins og við höfum talsvert rætt hér í dag, bestu leiðina. Þá er mjög mikilvægt að átta sig á því að hér hafa verið boðaðar aðrar breytingar á skattkerfinu, aukin einföldun á skattkerfinu eins og það er kallað. Þess vegna verð ég að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað, að ef ætlunin er að ræða endurskoðun á skattkerfinu er mjög mikilvægt að hafa heildarmyndina. Þau sjónarmið hafa verið viðruð að menn hafi áhuga á því að einfalda hið þrepaskipta tekjuskattskerfi, sem sannanlega hefur talsverð áhrif til tekjujöfnunar. Ef við ætlum að byrja á því að hækka álögur á matvæli og ýmislegt annað og fara síðan jafnvel á næsta ári í það að breyta hinu þrepaskipta tekjuskattskerfi þannig að tekjujöfnunaráhrif þess minnki þá hefur það áhrif á heildarmyndina. Þessa heildarmynd erum við ekki með hér undir. Ég verð því að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað, að ef ráðast á í umfangsmiklar breytingar á virðisaukaskattskerfinu hér og nú í gegnum þessi frumvörp þá væri líka mikilvægt að við hefðum einhverja hugmynd um framtíðarsýnina, heildarmyndina og áhrif á ólíka tekjuhópa þegar heildarmyndin er skoðuð.

Það er hægt að búa til einhver dæmi sem miða við ákveðin ísskápakaup eða ákveðin sjónvarpskaup og matarkörfu, en þurfum við ekki líka að átta okkur á því hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á tekjuskattskerfinu? Mér finnst því mjög mikilvægt að við höfum heildarmyndina í huga. Þegar þessi áhrif verða skoðuð, sem tekið hefur verið vel í að fara yfir, finnst mér mikilvægt að þetta verði tekið til umræðu.

Mig langar hins vegar sérstaklega að ræða einn þátt þessa máls sem er skattur á menningu, þ.e. virðisaukaskattur á bækur og virðisaukaskattur á tónlist og sérstaklega kannski bókaskatturinn sem hefur verið umdeildur. Eins og ég sagði áðan er virðisaukaskattsprósenta ekki náttúrulögmál, virðisaukaskattur var afnuminn með öllu á íslenskar bækur 1990. Hann var svo settur á á nýjan leik 1992 frá og með árinu 1993 og var þá 14% og var svo lækkaður niður í 7% samhliða matvælum 2007 þannig að þetta eru engin náttúrulögmál.

Áhugavert er að skoða hvað aðrar þjóðir hafa gert og hver reynsla þeirra er af breytingum á virðisaukaskatti. Af hverju finnst mér mikilvægt að ræða það? Jú, hluti af því að efla læsi í samfélaginu er að tryggja aðgengi að lesefni. Það er mér til að mynda mjög mikið áhyggjuefni að skoða þróunina, segjum til að mynda í nýútgefnum íslenskum barnabókum, því að það er mjög mikilvægt þegar við erum að horfa á læsi barna, sem ég hef áhyggjur af í samtímanum, að þau fái lesefni við hæfi, að þau fái lesefni úr sínu samfélagi, sínum samtíma. Því miður hefur höfundum og nýútgáfum á þessu sviði ekki fjölgað undanfarin ár, fremur staðið í stað.

Þá er vert að velta því fyrir sér: Hvaða áhrif hefur það þegar virðisaukaskattur er hækkaður á bækur? Ég get nefnt tvö dæmi frá nágrannalöndum okkar sem koma fram í óháðri norskri úttekt sem var gerð á breytingum á virðisaukaskatti á bækur sérstaklega og muninum til að mynda á því þegar ólíkur virðisaukaskattur er lagður á prentaðar bækur annars vegar og hins vegar rafbækur. Það hefur hins vegar verið í sama þrepi hér enda það sama í raun og veru, þ.e. ólíkt form með sama innihaldi.

Í Lettlandi var þessi virðisaukaskattur hækkaður úr 5% í 21% árið 2009, stór og mikil breyting. Bóksala dróst saman um hátt í 40%. Nýútgefnum bókum fækkaði um 50% í Lettlandi. Við getum sagt: Ókei, við ætlum ekki að draga of miklar ályktanir af þessu því að við þurfum að horfa auðvitað á almennt efnahagsástand líka, sem var ekkert sérstakt í Lettlandi á þessum tíma, þegar kreppan skall á. En horfum þá til að mynda til Svíþjóðar. Þegar virðisaukaskatturinn var lækkaður í Svíþjóð um talsverð skref hafði það þau áhrif að bóksala jókst um 20% á einu ári, alveg óháð í raun og veru efnahagsástandinu. Það hafði því beinlínis hvetjandi áhrif á bóksölu því að nýútgefnum bókum fjölgaði, því að þeir sem voru að gefa bækur út sáu aukin tækifæri með minni skattlagningu.

Ég tel að um bækurnar hljóti að gilda sérstök rök, ekki síst vegna þess að við höfum samþykkt hér á Alþingi Íslendinga þingsályktunartillögu um íslenska málstefnu, við samþykktum hana öll sem hér sátum þá, árið 2009. Við höfum gjarnan verið mjög ánægð með okkur og bent á stöðu þessa tungumáls sem aðeins rúmlega 300 þúsund málhafar nota — það eru auðvitað stórkostlega fáir sem nota þetta tungumál. Þess vegna er ekkert skrýtið þegar við erum á ferð erlendis að maður sé spurður að því hvaða tungumál við tölum eiginlega á Íslandi því að flestir reikna jú með því að við tölum ensku eða norsku. Fæstir reikna með því að við tölum sérstakt tungumál og séum að stritast við það.

Við höfum sem betur fer borið gæfu til þess að rækta tunguna. Það liggur líka fyrir að bókaútgáfa er þar mjög mikilvægur þáttur, þ.e. nýsköpun í tungumálinu fer ekki síst fram í gegnum útgáfu bóka, samningu bóka. Við hljótum að hafa áhyggjur af því. Ég fellst ekki á þau rök að um þennan kima menningarinnar eigi það sama við og um allt annað því að þetta er algjört lykilatriði í því að íslenskt samfélag og íslensk börn fái nýtt lesefni úr sínum samtíma, úr sínu samfélagi á hverjum tíma til að þess að tungumálinu verði viðhaldið. Þannig er það bara.

Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að mjög margar þjóðir hafa farið þá leið að hafa 0-skatt á bókum. Það eru ýmsar þjóðir sem gera það. Bretland hefur til að mynda farið þá leið og Írland hefur farið þá leið. Ekki þarf Bretland svo sem að hafa áhyggjur af tugumálinu en þeir hafa áhyggjur af því að bókum sé að fækka, ekki síst fyrir börn. Þeir gera þetta ekki síst út af læsisrökum enda mjög sterk barnabókahefð í Bretlandi sem skiptir máli að styrkja. Í Noregi er þetta gert og í Úkraínu. 17 þjóðir Evrópu eru með minna en 7% virðisaukaskatt á bókum og níu þjóðir eru með 8–10% virðisaukaskatt á bókum. Það eru einungis fjórar þjóðir sem eru með 12–25% og við yrðum þá fimmta þjóðin í þeim flokki ef það yrði framgangur málsins. Það eru Búlgaría, Tékkland, Danmörk og Lettland sem ég nefndi hér áðan.

Það er oft erfitt að teygja sig lengra út í heim og skoða einhvern samanburð en auðvitað vekur það athygli þegar við sjáum að í Suður-Kóreu er ekki virðisaukaskattur á bókum. Þeir eru í hópi þeirra þjóða sem standa sig hvað best í lesskilningi í hinni margfrægu PISA-könnun. Sex Asíuríki eru með 0% virðisaukaskatt á bókum. Kanada er með 0% virðisaukaskatt á bókum. Það er ástæða fyrir þessu. Meðal annars hefur þetta verið rökstutt, eins og ég hef fylgst með þessum umræðum og lesið mér til, út frá læsisrökunum, að það sé mjög mikilvægt til að styrkja og efla læsi.

Eins og ég hef bent á fer hæstv. menntamálaráðherra um landið og talar fyrir því að við gerum eitthvað raunverulegt til þess að efla læsi, og ég er algjörlega sammála honum um það, en þá skýtur auðvitað skökku við að við ætlum að torvelda bókaútgáfu í landinu, að við völdum því hugsanlega með aðgerðum okkar að nýútgefnum bókum fækki. Við ættum að huga að því að nýta það styrkjakerfi sem við höfum, sem er gott. Ég vitna til listamannalauna, sem eru lögbundin, og það er Bókmenntasjóður sem er ekki skorinn niður. Með þessu höfum við áhrif á lokaskrefið eiginlega í ferlinu, þegar bækur eru gefnar út.

Þetta tel ég vera áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þeirrar stöðu sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar, að fjöldi nýútgefinna barnabóka hefur staðið í stað og jafnvel heldur fækkað á undanförnum árum. Við vitum að það er svo gríðarlega mikil þörf á góðu lesefni fyrir börn. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að það verður ekki leyst eingöngu með aukinni tæknivæðingu barnanna. Það er mjög mikilvægt að börnin læri á tæknina en þau þurfa líka að hafa eitthvað áhugavert að lesa. Það er því mjög mikilvægt að aðgerðir okkar verði ekki til þess að það dragi úr nýjum, vönduðum og góðum skáldskap fyrir börn.

Ég leyfi mér að vísa í málstefnuna sem við samþykktum þar sem sérstaklega er vitnað til þess að bókmenntir hljóti að vera sú listgrein sem sé tengdust tungunni því að orðin og tungumálið séu í senn efniviður þeirra og verkfæri og því hafi verið haldið fram að bókmenntir séu almennt forsenda þess að tungumál fámennra þjóða geti lifað af og að ástæða þess að við tölum hér enn, ríflega 300 þúsund, þetta tungumál okkar sé ekki síst það að við höfum haft sagnahefðina, fornsögurnar sem urðu í raun og eru til þess að tungan lifði þrátt fyrir að henni stæði iðulega ógn af erlendum áhrifum.

Ég tel að það séu menningarleg pólitísk rök fyrir því að skoða sérstaklega bókmenntirnar þegar þessi aðgerð er til umræðu. Ég tel raunar að það megi ræða og yfirfæra þetta yfir á tónlist að einhverju leyti. Það eru auðvitað ekki sömu málpólitísku rökin þar en það má ekki gleyma því að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir og hæstv. forsætisráðherra að unnið sé að sóknaráætlun fyrir skapandi greinar á vegum ríkisstjórnarinnar.

Ég leyfði mér að spyrja hæstv. menntamálaráðherra út í þessa sóknaráætlun og stöðu hennar í umræðum um fjárlög og fékk þau svör að fyrstu merki hennar sæjust í frumvarpinu því að ekki væri mikið skorið niður til menningarmála. Ég hefði viljað sjá aðeins öflugri sóknarbolta í þessari sóknaráætlun og bendi á það þegar við ræðum tónlist að þjóðir hafa líka tekið marktæk skref til þess að efla tónlistariðkun, þá er ég að vitna til tónlistar sem atvinnugreinar, með því að draga úr álagningu virðisaukaskatts á tónlist. Þessi dæmi þekkjum við, til að mynda gömul dæmi frá Frakklandi þar sem þetta hefur beintengd áhrif á sölu og framleiðslu á tónlist.

Mér finnst það skjóta skökku við þegar ríkisstjórnin hefur boðað sókn skapandi greina að sóknin birtist í þessum fjárlögum annars vegar sem „ekki niðurskurður“ og hins vegar sem beinlínis vond aðgerð bæði fyrir íslenskar bókmenntir og fyrir íslenska tónlist með því að hækka virðisaukaskattinn á bókum og tónlist úr 7% í 14%. Það er engin sókn falin í þessu þannig að ég fer nú að draga þá ályktun að þessi sóknaráætlun hafi fyrst og fremst verið einhver orð í áramótaávarpi. Við höfum ekkert séð meira til hennar en þetta og þetta boðar ekki góð tíðindi fyrir starfandi listamenn, hvorki í bókmenntum né tónlist.

Tíminn líður mjög hratt í pontu og maður nær ekkert að fara vel yfir nema örfá mál. Ég vil nota síðustu mínúturnar til að segja að mér finnst mjög mikilvægt að við almenna meðhöndlun þessa frumvarps í hv. efnahags- og skattanefnd og auðvitað við meðferð fjárlaganna hjá hv. fjárlaganefnd verði sérstaklega farið yfir áhrif frumvarpsins, eins og ég nefndi áðan, hækkunina á virðisaukaskatti á matvæli og rafmagn o.fl., að þetta verði skoðað út frá heildarmyndinni. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvaða fleiri breytingar á skattkerfinu eru fyrirhugaðar á þessu kjörtímabili af því að þær geta haft áhrif gegn tekjujöfnun, þ.e. valdið auknum ójöfnuði, og þá vitna ég til að mynda til breytinga á tekjuskattskerfinu sem geta sett þessar breytingar í annað samhengi. Ég hefði talið að það væri mjög eðlilegt að hæstv. ráðherra gerði nefndinni grein fyrir næstu skrefum í þessari vinnu svo að við gætum séð heildarmyndina áður en við samþykkjum einhverjar breytingar á borð við þær sem eru boðaðar í þessu frumvarpi og í fjárlagafrumvarpinu.