144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér skilst að fjöldi barna hafi kynnst einhverju sem heitir tölva, net, hugbúnaður og annað slíkt. Ég hygg og vil spyrja hv. þingmann: Hefur hann ekki þá trú að í framtíðinni verði hugbúnaður og kennsluforrit meira lesið en bækur? Þá er spurning að huga að því hvernig virðisaukaskatturinn er í því kerfi öllu saman.

Tölvur falla í efra þrepið, það er ekki spurning, (KJak: Rafbækur í neðra.) þó að þær séu notaðar til þess að stunda menntun — og rafbækur, segir hv. þingmaður að falli í neðra þrepið, sem er dálítið undarlegt því að það eru eiginlega sérstakar tölvur. Hugbúnaður er að mér skilst virðisaukaskattsskyldur. Ég er ekki búinn að finna út úr því hvort hann er í efra eða neðra þrepinu en ég hugsa að hann sé frekar í efra þrepinu. Þar er kostnaður, t.d. heimilanna og barnanna. Ég hugsa að innan ekki langs tíma muni lestur verða kenndur með hugbúnaði á netinu og mjög margt annað í skólakerfinu, þannig að það er ekki alveg einhlítt að lestrarkunnáttan sé bundin við bækur.

Síðan er spurning hversu næmt verð á bókum og kaup á þeim er fyrir skattheimtu. Ég er ekkert viss um að það skipti neitt voðalega miklu máli. Verð á bókum er jú frjálst, það er frjáls álagning og þó að það hækki um 5% þá er spurning hvort það sé ekki frekar samkeppnin á jólabókamarkaðnum sem ákveður verðið en ekki endilega skattlagningin. Þetta er þekkt mjög víða. Ég hef ekki sömu áhyggjur og hv. þingmaður af því að þetta muni einhvern veginn rústa lestrarkunnáttu íslenskra barna.